Steve McQueen - mótorhjólamaður allra tíma

http://www.fib.is/myndir/Steve%20McQueen-andlit.jpg
Steve McQueen.

Hollywoodleikarinn Steve McQueen sagðist víst einhverntíman meðan hann var á dögum, að hann vissi eiginlega ekki hvort heldur hann væri leikari sem stundum tók þátt í kappakstri eða kappakstursmaður sem stundum lék í bíómyndum. En nú, 27 árum eftir dauða sinn af völdum lungnakrabbameins, hefur Steve McQueen verið útnefndur mótorhjólamaður allra tíma.
The image “http://www.fib.is/myndir/Steve-McQueen.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Útnefningin var gerð í aðdraganda mótorhjólasýningarinnar MCN London Motorcycle Show og fór atkvæðagreiðsla fram hjá Yahoo á Netinu. Ekki er hægt að segja að þátttaka hafi verið neitt gríðarleg því að 2.254 greiddu atkvæði. Fjórða hvert atkvæði féll á Steve McQueen sem vissulega var mikill mótorhjólamaður. Frægt er atriði í kvikmyndinni Flóttinn mikli þar sem hann stelur þýsku hermótorhjóli og flýr á því úr þýskum fangabúðum og m.a. stekkur á hjólinu yfir girðingu. Það og önnur mótorhjólaatriði í myndinni lék McQueen sjálfur enda vandfundinn sá mótorhjólamaður sem hefði getað gert það betur en stjarnan sjálf.

Steve McQueen var um fimm ára skeið giftur leikkonunni Ali McGraw og bjuggu þau í Hollywood. Sagt er að hún hafi stundum verið ansi þreytt á karli sínum, sérstaklega vegna þess að hann átti það til að hverfa dögum saman eitthvert út í Nevada-eyðimörkina á torfærumótorhjóli án þess að láta neitt vita af sér.
http://www.fib.is/myndir/Steve_mcqueen_essence_of_cool.jpg
MCN London Motorcycle Show verður í sýningarhöll í London sem nefnist ExCeL dagana 1. til 4. febrúar. Hægt er að kynna sér sýninguna nánar á www.londonmotorcycleshow.com.