Stjórn FÍB mótmælir sjálftöku Isavia

Stjórn Félags íslenskra bifreiðaeigenda ályktaði í síðustu viku gegn boðuðum ofurhækkunum Isavia á bílastæðagjöldum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Ályktunin hefur verið send forstjóra Isavia, Birni Óla Haukssyni, Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Ólöfu Nordal innanríkisráðherra. Ályktunin er svohljóðandi:

„Isavia ohf, áður Flugmálastjórn er opinbert hlutafélag og alfarið í eigu ríkisins. Fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu en innanríkisráðherra ber ábyrgð á faglegri stefnumótun í samvinnu við stjórn félagsins.

Isavia sem rekur flugvelli landsins hefur enn einu sinni ákveðið stórfelldar hækkanir á bílastæðagjöldum við aðal flughöfn Íslands; Leifsstöð við Keflavíkurflugvöll. Isavia ræður yfir bílastæðunum umhverfis flugstöðina og er þar með einokun.  Aðsókn í stæðin hefur stóraukist frá bankahruni og nýting þeirra stórlega batnað. Að öllu eðlilegu ætti það að hafa leitt til verðlækkunar en þar sem almenn markaðslögmál ná sjaldnast yfir einokunaraðila þá stórhækkar Isavia bílastæðagjöldin aftur og aftur og skýrir það nú með kostnaði við nýframkvæmdir og endurbætur á bílastæðunum. Boðaðar hækkanir eru frá 30 prósentum upp í 117 prósent sem er órafjarri íslenskum efnahagsveruleika um þessar mundir.

Stjórn Félags íslenskra bifreiðaeigenda; FÍB mótmælir þessum hækkunum harðlega og krefst þess að þær verði afturkallaðar þegar í stað og taki ekki gildi þann 1. apríl nk. eins og tilkynnt hefur verið. Hækkanirnar eru réttlættar af Isavia með því að fjölga þurfi bílastæðum við flugstöðina vegna fyrirsjáanlegrar aukningar umferðar um hana. Tilgangur hækkananna er sá einn að afla fjár til fjölgunar bílastæða við flugstöðina, efalaust til að mæta þörfum bílaleiga vegna aukins fjölda erlendra ferðamanna. Þeim kostnaði virðist eiga að velta yfir á herðar íslenskra bifreiðaeigenda og láta þá niðurgreiða kostnað þessarar ferðaþjónustugreinar.

Stjórn FÍB skorar sérstaklega á stjórn Isavia, sem kosin er af eiganda þess (fjármálaráðherra) til að hafa virkt eftirlit með rekstri og starfsemi félagsins. að tryggja það að þessi tilhæfulausa ofurhækkun bílastæðagjalda við Leifsstöð komi ekki til framkvæmda. Fyrirhuguð hækkun og boðun hennar er þvert á eftirfarandi þjónustugildi Isavia:

-Við setjum okkur skýr þjónustuviðmið og tileinkum okkur jákvætt viðmót og virðingu gagnvart viðskiptavinum."