Stjórnlaus bíll yfir á rangan helming tvöfaldrar Reykjanesbrautar

The image “http://www.fib.is/myndir/Ekkivegrid.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Ökumaður á Reykjanesbraut hringdi síðdegis í gær hingað til FÍB. Hann var þá staddur á Strandarheiðinni um það bil á miðjum tvöfalda hluta Reykjanesbrautarinnar og hafði ekið fram á umferðaróhapp. Óhappið hafði gerst með þeim hætti að ökumaður á bíl á leið frá Reykjavík til Keflavíkur hafði misst stjórn á bílnum í krapi á vinstri akrein. Bíllinn hafði farið vinstra megin útaf, yfir geilina á milli akbrautanna til gangstæðra átta, síðan yfir báðar akreinarnar sem flytja umferð í átt til Reykjavíkur og loks endað för á ljósastaur í kantinum.
Eins og FÍB hefur marg bent á er sú fyrirætlan yfirvalda vegamála að hafa ekkert vegrið á milli akbrauta tvöfaldrar Reykjanesbrautar ekki ásættanleg. Óhappið í gær er áminning um það hversu mikilvægt er að aðskilja gagnstæðar akstursstefnur yfirleitt og ekki síst á þessari einu hraðbraut landsins. Á 90-110 km hraða tekur það ökutæki aðeins sekúndubrot að fara yfir geilina á milli akbrautanna og yfir á akbrautina á móti, eins og gerðist í gær. Það var mikil mildi að akbrautin í átt til  Reykjavíkur var auð af bílum þegar stjórnlausi bíllinn kom inn á hana og lenti á staurnum. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Keflavík hafa áður orðið óhöpp á Reykjanesbrautinni af því tagi að bílar hafa farið yfir á ranga akbraut þótt ekki hafi hingað til orðið slys á fólki af þeim sökum.