Stöðutákn á afmæli

Um þessar mundir er eitt traustasta vörumerki veraldar, Harley Davidson, 110 ára. Harley Davidson mótorhjólin sem vörumerkið snýst um, eru án vafa frægustu mótorhjól heimsins og þeir eru ekki hlutfallslega margir mótorhjólaknaparnir á öðrum hjólagerðum sem ekki dreymir um að eignast Harley og færast þannig upp í einskonar úrvalsflokk mótorhjólafólks.

http://www.fib.is/myndir/Harleygella.jpg
http://www.fib.is/myndir/Harley-davidson-1942.jpg

Harley Davidson hefur lengstum verið mikið frelsistákn í hugum margra og myndast hafa hópar og gengi utanum Harley Davidson mótorhjólin og hafa sumir þessir hópar teygt frelsishugtakið svo langt að nánast segja sig úr lögum við samfélagið, eins og t.d. Hell´s Angels. Harley mótorhjólið og englagengið er orðið alfa og omega sjálfs lífsins. Þeir sem ráðið hafa stefnunni hjá Harley Davidson hafa heldur ekki hikað við að ýta undir þessa útlagaímynd hjólsins í auglýsingum, kvikmyndum og slagorðum eins og –Live to ride – Ride to live sem útleggst lauslega að lifa til að hjóla og hjóla til að lifa.

En það er auðvitað fjarri því að allir sem eiga og nota Harley Davidson hjól séu útlagar. Meðal Harleyfólks er fólk af öllum stéttum, verkamenn, vörubílstjórar, prestar, lögmenn, læknar, tónlistarmenn – þverskurður af samfélaginu.

Saga Harley Davidson hjólanna hófst um aldamótin 1900 þegar tveir ungir menn frá Milwaukee; William S. Harley og Arthur Davidson vildu byggja vélknúið reiðhjól. Þeir leituðu til Norðmannsins Ole Evinrude með að smíða mótorinn og fyrsta mótorhjólið varð til árið 1901. Mótorinn sem Evinrude smíðaði reyndist ekki nógu vel svo þeir William og Arthur leituðu til bræðra Arthurs sem voru góðir vélsmiðir. Þeir voru til í tuskið og árið 1903 stofna félagarnir Harley-Davidson Motor Company og byrja að framleiða mótorhjól. Hjólin reyndust ágætlega og eftirspurnin jókst hratt, ekki síst þegar Harley hjól tóku að gerast sigursæl í fjölmargri kappaksturskeppni. Þá tóku ýmis lögreglulið að veita hjólunum athygli og koma sér upp mótorhjólasveitum sem hver eftir aðra vildi fá Harley Davidson hjól til afnota. Framleiðslan stjórjókst svo með þátttöku Bandaríkjanna í síðari heimsstyrjöldinni þegar herinn bauð út smíði samtals 88 þúsund sérbúinna herhjóla og tilboði Harley Davidson var tekið.

Þegar stríðinu lauk var veruleg eftirspurn eftir mótorhjólum og verksmiðjan ágætlega í stakk búin til að mæta henni. Harley Davidson varð nánaast einrátt á bandarískum mótorhjólamarkaði. Allt gekk því vel fram undir sjöunda áratuginn þegar allt í einu bresk mótorhjól tóku að birtast á markaðnum og skömmu síðar japönsk. Bresku hjólin voru bæði léttbyggð, hraðskreið og aflmikil og á hagstæðu verði miðað við stór og þung Harley hjólin. Svipað var að segja um japönsku hjólin auk þess sem þau voru mjög vel byggð og biluðu lítið, miklu minnan en Harley hjólin gerðu. Allt þetta varð til þess að mjög hallaði undan fæti hjá fyirtækinu og gjaldþrot var yfirvofandi

Þá brást hópur stjórnenda í fyrirtækinu við, keypti Harley Davidson og setti saman langtíma gæðaátak og endurreisnaráætlun. Þetta var árið 1981 og árið 1984 kemur mjög endurbætt Harley hjól á markað. Það hét V2 Evolution og þótti vel samanskrúfað og endingargott. Síðan hefur leiðin verið upp á við, nýjar hjóla- og vélagerðir litið dagsins ljós og sjálft Harley Davidson vörumerkið orðið útbreiddara en nokkru sinni fyrr.