Stór bílasýning um helgina

Fyrsta stóra bílasýningin á Íslandi síðan 1984 verður haldin í Fífunni í Kópavogi um helgina. Sýningin nefnist Allt á hjólum en það er Bílgreinasambandið sem gengst fyrir henni. Sýningin verður opnuð á morgun, laugardaginn 21. maí, og verður opin til kl. 18.00.

Á sunnudag verður húsið opnað á ný kl. 11.00 til kl. 16.00. Ókeypis aðgangur er að sýningunni Allt á hjólum. Auk nýjustu fólksbíla verða til sýnis ferðabílar, hjólhýsi, mótorhjól, fjórhjól og rafhjól sem og ýmiskonar varningur og þjónusta sem tengist bílum og farartækjum, rekstri þeirra og úthaldi.  

Sýningarsvæðið er  rúmlega 4.000 fm og sýnendur eru flest bílaumboð landsins ásamt fyrirtækjum sem bjóða upp á bílatengdar vörur og þjónustu.

Bílasýningar á vegum Bílgreinasambandsins voru algengar á árunum í kringum 1970-1980, en síðasta bílasýningin var haldin 1984. Ásamt því að geta komið og skoðað það nýjasta á markaðnum geta sýningargestir fengið sér hressingu og veitingar og tveir risa-stórir hoppkastalar verða fyrir börnin.