Stór breið hola myndaðist við brúna yfir Norðurá

Ekkert tjón varð þegar tveggja metra djúp og 1,5 metra breið hola myndaðist við brúna yfir Norðurá í vikunni. Snör viðbrögð vegfarenda, Vegagerðarstarfsmanna og verktaka skiptu þar miklu. Vegfarandi kom að holunni og tilkynnti um hana klukkan 15. Búið var að laga veginn sex tímum síðar.

Leysingar geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir vegi landsins. Flestir kannast við holur sem myndast á þessum tíma árs á vegum með bundnu slitlagi og vinna starfsmenn þjónustustöðva Vegagerðarinnar hörðum höndum að því þessa daga og vikur að gera við holur áður en þær valda tjóni eða stækka úr hófi fram.

Óvenjulegar aðstæður urðu til þess að afar stór hola myndaðist við brú yfir Norðurá í síðustu viku. Leysingar hafa verið miklar, vatnsagi og klakahröngl hefur hálf stíflað vatnsflæðið undir brúna en við það myndast mikill vatnsþrýstingur milli steina í grjótgarðinum.

Vatnið hefur síðan holað sig í gegnum styrktarlag vegarins við brúarvegginn og smám saman grafið undan klæðingu vegarins. Efnið skolaðist út neðan við brúna og mótaði röst í árfarveginn. Lítið gat sem var í klæðingunni stækkaði til muna og varð 1,5m í þvermál. Holan sjálf var tæplega tveggja metra djúp.