Stór rafbílatilraun hefst í Danmörku

FDM, félag bifreiðaeigenda í Danmörku verður aðili að mikilli tveggja ára rafbílatilraun sem hefst á föstudaginn, þann 3. des. 300 rafbílar verða prófaðir í daglegri notkun sem  heimilisbílar og ökumenn þeirra verða alls 2.400. Hlutverk FDM er að fylgjast með því að tilraunin fari fram eins og til er ætlast og að ökumenn haldi dagbækur yfir notkun sína á bílunum. Hvert heimili sem fær rafbíl til afnota hefur bílinn til umráða í tiltekinn tíma. Þá tekur næsta fjölskylda við honum og svo koll af kolli.

Það er fyrirtæki sem heitir ChooseEV sem stendur að tilrauninni. Framkvæmdastjórinn; Henrik Isaksen segir að aðkoma FDM að verkefninu sé mjög mikilvæg. Félagið sé sá aðili sem best sé treystandi til að sjá til þess að allt fari rétt fram og kostir og gallar bílanna verði metnir hlutlægt. „Við erum að finna rafbílanotendur framtíðarinnar og það er mikilvægt að vinna forvinnuna eins vel og mögulegt er frá fyrsta augnabliki,“ segir Henrik Isaksen.

 „Nú eru spennandi tímar í samgöngumálum og menn leita með logandi ljósi að öðrum orkugjöfum í stað olíu og bensíns. Við í FDM fögnum því að verða þátttakendur í stærstu rafbílatilraun Evrópu sem mun veita mikla innsýn heim rafbílanna og notagildi þeirra fyrir bifreiðanotendur. Rafbílar munu án vafa verða fyrirferðarmiklir í framtíðarumferðinni,“ segir Torben Lund Kudsk tækniráðgjafi hjá FDM.

Þeir fyrstu sem fá rafbíla til þessa tveggja ára reynsluaksturs eru íbúar í Høje Tåstrup sem er útborg Kaupmannahafnar. Þeir fá bílana á föstudag, 3. des. Síðan dreifast tilraunabílarnir 300 til 29 sveitarfélaga um allt landið. Lesa má nánar um verkefnið á www.testenelbil.dk