Stóraukið drægi rafbíla

Tvær sænskar vísindakonur, doktorsnemar við konunglega sænska tækniháskólann; Matilda Klett og Marianne Giesecke vinna að því að þróa aðferð við að stórbæta rýmd og afköst líþíumrafgeyma. Takist þetta mun drægi rafbíla stórlega aukast og miklu sjaldnar þarf að stinga þeim í samband en nú þarf. Takmarkað drægi hefur alla tíð verið og er enn helsti þröskuldurinn í vegi rafbílanna þrátt fyrir verulegar framfarir undanfarin ár.

Vísindakonurnar og rannsóknahópur þeirra hafa fundið aðferð við að rýna í leiðni líþíumjóna í rafhlöðum sem talin er vera forsenda þess að stórbæta geymslurýmd og afköst geymanna og bæta endingu þeirra auk þess mjög verulega.

„Vandinn við rafhlöðurnar er að hver þeirra er lokað kerfi. Hægt er að mæla straum og spennu í þeim en hingað til hefur ekki verið hægt að skoða hvernig jónirnar hreyfast innan hins lokaða kerfis. Það er hinsvegar þessi hreyfanleiki jónanna sem er sjálf forsenda afkasta og orkurýmdar rafhlöðunnar,“ segir Matilda Klett við sænska Auto Motor & Sport.

Hún segir að rannsóknahópurinn hafi fundið aðferð til að skoða, skilja og skilgreina þessar jónahreyfingar sem eru sjálf forsenda þess hvernig rafhlaðan virkar yfirleitt. Næsta stigið er að sögn hennar það, að samhæfa þessa nýju skoðunartækni  öðrum rannsóknum á rafhlöðum og í framhaldinu að velja réttu hráefnin í bæði elektróður og elektrólýta fyrir rafhlöðurnar.

Innan raunvísindaheimsins þykir þessi umrædda uppfinning sænsku vísindakvennanna mjög mikilvæg og merkileg. Það segir sína sögu að vísindaleg grein þeirra um uppfinninguna hefur þegar birst í hinu virta vísindatímariti Journal of the American Chemical Society.