Stóraukin starfsemi FÍB-aðstoðar

Umsvif FÍB-aðstoðar hafa vaxið gríðarlega á síðustu fáu árum. Á nýliðnu ári sinnti FÍB-aðstoð tæplega 1.800 aðstoðarbeiðnum félagsmanna FÍB, en á fyrsta starfsári hennar 1999 voru aðstoðarbeiðnirnar 762.

FÍB-aðstoð er neyðarþjónusta Félags íslenskra bifreiðaeigenda við félagsmenn og veitir þeim hjálp við að ræsa rafmagnslausa bíla, aðstoð við dekkjaskipti og kemur með eldsneyti til fólks sem gleymt hefur að fylla á eldsneytisgeyminn. Þessa þjónustu fá félagsmenn endurgjaldslaust innan tiltekinna þjónustusvæða en þau eru flest þéttbýlissvæði landsins og næsta nágrenni þeirra. Ennfremur fá félagar í FÍB einn dráttarbíl frían á ári innan þjónustusvæðanna til að flytja bilaða bíla á verkstæði. Þessi stórauknu umsvif hafa eðlilega haft í för með sér stóraukinn reksturskostnað fyrir félagið, sem mæta verður með einhverju móti.

FÍB-aðstoð tók til starfa árið 1999 og naut strax mikilla vinsælda meðal félagsmanna og varð fljótlega ein af meginforsendum margra til að ganga til liðs við FÍB. Á árunum 1999 til og með 2007 sinnti FÍB-aðstoð frá 600 til 950 beiðnum um aðstoð árlega en árið 2008 varð stökkbreyting: Aðstoðarbeiðnum fjölgaði úr 648 árið 2007 í 1002 árið 2008 eða um tæp 65 prósent.

Frá árinu 2007 hefur aðstoðarbeiðnum fjölgað stöðugt ár frá ári. Það má án vafa rekja til þess að bílafloti landsmanna hefur verið að eldast hratt á þessu tímabili, eða frá því að efnahagshrunið reið yfir.

Frá árinu 2008 til 2012 varð fjölgunin í prósentum talið tæp 60 prósent. Og milli 2011 og 2012 varð hún 25,3%.