Stórflutningana burt á annatímum

http://www.fib.is/myndir/Vindm%F8lle.jpg
Þetta vilja menn burt af dönsku hraðbrautunum á annatímum.

Stórir vöruflutningabílar sem flytja t.d. vindmylluvængi og annan sér- og stórflutning á hraðbrautum Danmerkur mynda oft langar biðraðir á hraðbrautunum og valda miklum töfum á umferð og jafnvel hættuástandi. FDM sem er systurfélag FÍB vill nú að flutningar af þessu tagi verði bannaðir á umferðarannatímum. Umræðan um þetta kemur upp á Jótlandi en þar eru verksmiðjur sem framleiða vindmyllur og vindmylluvængi og er talsverð vöruflutningaumferð vegna þeirra.

Eins og nú háttar mega slíkir flutningar eiga sér stað á hraðbrautunum svo fremi sem heildarlengd flutningsins sé undir 30 metrum, -breiddin sé minni en 3,30 m og hæðin minni en 4,10 m. Ef stærð flutningsins fer á einhvern hátt út fyrir þennan ramma verður að fá sérleyfi hjá lögreglu til akstursins.

Samkvæmt núgildandi reglum getur lögregla ekki bannað flutninga innan fyrrnefndra stærðarmarka svo fremi sem dráttarbíllinn/vörubíllinn geti náð og haldið 60 km hraða sem er lágmarks ökuhraði á hraðbrautum Danmerkur.

En þar sem 60 er mjög lítill hraði samanborið við almennan ökuhraða á hraðbrautum valda þessi ökutæki miklum töfum og usla í umferðinni þegar umferð er mikil, ekki síst á háannatíma. –Þetta gengur ekki lengur og það verður að taka fjöldahagsmunina fram yfir hagsmuni hinna fáu. Á morgnana er umferð mjög þétt á hraðbrautunum. Þessvegna á ekki að leyfa þessa flutninga á sama tíma, sagði Thomas Møller Thomsen framkvæmdastjóri FDM við danska ríkisútvarpið í Vejle á Jótlandi.