Strákar – ekki leika ykkur í umferðinni!

The image “http://www.fib.is/myndir/Kvendrive.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Sænski þingmaðurinn Karin Svensson Smith segir að ef karlmenn breyta ökulagi sínu og taka að aka eins og miðaldra konur gera, muni dauðaslysum í umferðinni fækka um helming.
-Umferðarmenningin er menning sem karlar hafa skapað fyrir sjálfa sig. Þeim finnst karlmannlegt og sjálfsagt að taka áhættu. Dauðaslysum í umferðinni myndi fækka um helming ef karlar höguðu sér eins og konur í umferðinni,- sagði þingmaðurinn við Aftonbladet í Svíþjóð.
Yfirmaður umferðaröryggismála hjá sænsku vegamála- og umferðarstofnuninni tekur undir með Karin Svensson Smith og segir að karlar séu mun gjarnari en konur til þess að hundsa þrjár mikilvægustu öryggisreglurnar í akstri sem eru að vera allsgáður, spenna bílbeltið og aka aldrei hraðar en umferðarskiltin um hámarkshraða mæla fyrir um.
Samkvæmt Aftonbladet skellir Karin Svensson Smith skuldinni á karlrembuviðhorf karlanna sem m.a. birtast í ásókn þeirra í stóra, aflmikla og hraðskreiða bíla sem stöðutákn. Bílablöð og bílaauglýsingar rói undir og espi upp delluna í karlmönnunum í þessa veru. Sem bót á þessum vanda telur þingmaðurinn að vinna verði að viðhorfsbreytingu hjá karlmönnum bæði með fræðslu en líka með harðari refsingum. –Það liggur þyngri refsing við því að aka yfir úlf en barn. Það gengur ekki,- segir Karin Svensson Smith.
Robert Collin bílablaðamaður hjá Aftonbladet er ekki algjörlega sammála þingmanninum. Hann telur að almennt séu karlar betri ökumenn. Þeir eigi það bara til að leika sér í umferðinni og reyna á takmörk sín sem ökumenn með slæmum afleiðingum á stundum. –Hættið að leika ykkur í umferðinni, - eru skilaboð hans til karl-ökumannanna.
The image “http://www.fib.is/myndir/Traffic.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Umferðin - ekki leiksvæði fyrir stráka segir sænskur bílablaðamaður.