Í nógu að snúast í FÍB-Aðstoðinni í Borgarnesi

Það er stundum í nógu að snúast hjá FÍB-Aðstoðinni í Borgarnesi. Þar um slóðir fer í gegn mikil umferð allan ársins hring, þá alveg sérstaklega yfir sumarmánuðina. Stór sumarbústaðalönd eru þar í nágrenni og því gott að vita af aðstoðinni í Borgarnesi ef eitthvað kemur upp á.

Hálfdán Þórðarson og félagar í Bílabæ í Borgarnesi annast aðstoðina og eru boðnir og tilbúnir til að þjónustu allan sólarhringinn. Bílabær hefur annast FÍB-Aðstoðina i um 15 ár og hefur yfir að ráða góðum tækjabúnaði sem kemur að góðum notum í útköllum sem berast. Auk FÍB-Aðstoðarinnar rekur Hálfdán bíla- og dekkjaverkstæði.

,,Ég byrjaði í FÍB-Aðstoðinni eftir að ég keypti fyrsta bílaflutningabílinn fyrir rétt tæpum 15 árum síðan. Þetta er eins og með öll störf, stundum er rólegt en síðan koma tíma sem mikið er að gera. Mér finnst nú orðið ekki vera mikið um þessi svokölluðu litlu útköll, start, bensín og dekkjaaðstoð. Þess heldur er meira í seinni tíð verið að nota bílaflutningabílinn og flytja bíla til skoðunar og viðgerðar á verkstæði. Með auknum ferðamannastraumi finnum við aukningu og það fer þá sérstaklega fram í gegnum bílaleigurnar,“ segir Hálfdán Þórisson í spjalli við FÍB-blaðið.

Hálfdán segir það mjög skemmtilegan tíma að hafa unnið með FÍB. Það hefur ýmislegt á dagana drifið. Hann hafi í sumar fengið að annast óvæntan flutning á bíl alla leið til Seyðisfjarðar.

,,Þetta var skemmtilegur túr sem barst inn á borð til okkar. Það vildi þannig til að það bilaði húsbíll sem kominn var til ára sinna á Selfossi. Þar á svæðinu fékkst enginn til að flytja bíla austur svo við vorum fengnir til verksins. Ég skutlaði bílnum í Norrænu og það er óhætt að segja að þetta hafi verið tilbreyting frá öðrum störfum heima fyrir. Það er gefandi að geta komið fólki til aðstoðar í vanda og allir eru þakklátir fyrir hjálpina þegar upp er staðið,“ segir Hálfdán Þórisson hjá FÍB-Aðstoð í Borgarnesi.