Subaru loks með dísil

http://www.fib.is/myndir/Subarudiesel.jpg
Subaru dísilvélarnar, fyrstu boxerdísilvélar bílasögunnar.

Subaru hefur unnið að því að þróa nýjar dísilvélar fyrir bíla sína að undanförnu og nú hefur verið tilkynnt að fyrstu dísil-Subarubílarnir komi á markað í Svíþjóð í apríl næstkomandi.

Subaru dísilvélarnar verða jafnframt þær fyrstu í bílasögunni sem eru af boxergerð, það er að segja með lárétta stimpla. Subaru hefur alla tíð haldið fast í þá hefð að bjóða bíla með boxer-bensínvélum og hafa vélarnar reynst mjög vel og verið sérlega endingargóðar. Um tvö ár eru síðan Subaru tilkynnti að dísilvélar væru á leiðinni og á bílasýningunni í Genf  fyrir tæpu ári voru fyrstu boxer dísilvélar þeirra frumsýndar.

Nýju dísilvélarnar verða í fyrstunni í Subaru Legacy og Subaru Outback. Þær verða  tveir lítrar að rúmtaki, 163 hestöfl og með 350 Newtonmetra vinnslu.