Sundabraut hefði mun meiri áhrif á umferðarþunga

Þetta kemur fram í greiningu sem Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur hefur gert og greint er frá í Morgunblaðinu í dag. Í greiningunni er stuðst við umferðarspár sem gerðar hafa verið með umferðarlíkani fyrir höfuðborgarsvæðið og þess sérstaklega gætt að vanmeta ekki áhrif Borgarlínu. Miðað var við að 2.000 íbúðir væru fullbyggðar og 5.000 manns flutt inn í þær árið 2025, auk um 10.000 m² atvinnuhúsnæðis.

Lauslega áætlað myndi umferðarsköpun hverfisins nema um 20 þúsund bílum á sólarhring, en um þriðjungur hennar myndi fara um Ártúnsbrekku þar til Sundabrautar nýtur við. Þrátt fyrir að Borgarlínan kæmi fyrr til og ferðatíðni strætó ykist verulega myndi umferðarsköpun hverfisins minnka sáralítið, ef miðað er við nýtingu strætó í hverfum fjarri miðborginni. Jafnvel þótt fyrrverandi bílstjórar væru um 50% nýrra farþega myndi umferðarsköpun hverfisins aðeins minnka um 600 bíla á sólarhring, þar af um 400 bíla um Ártúnsbrekku.

Umferð um hana vegna Keldnahverfis næmi því 6.600 bílum á sólarhring í stað 7.000 án Borgarlínunnar. Áhrif Sundabrautar á umferð um Ártúnsbrekku yrðu hins vegar veruleg, bæði vegna Keldnahverfis og annarra hverfa, en þá myndi bílum á sólarhring fækka þar um 10 til 15 þúsund, eftir því hvort jarðgöng eða lágbrú yrði fyrir valinu.