Suzuki í rífandi gangi

http://www.fib.is/myndir/Suzuki_swift_gt_1600.jpg

Það er ekki síst þessi bíll; Suzuki Swift sem eflt hefur velgengni Suzuki í Evrópu.

Suzuki i Japan er bílafyrirtæki sem aðrir bílaframleiðendur hljóta að hafa vakandi auga með, ekki síst heimsins stærsta í greininni –Toyota. Suzuki er í örum vexti og á síðasta bókhaldsári sem lauk í marslok sl. reyndist söluaukning á heimsvísu hafa verið 15,2% miðað við árið á undan. Í Evrópu nýtur Suzuki mikillar velgengni og varð söluaukningin í álfunni 34,3%.

Afkoma Suzuki hefur stöðugt verið að batna undanfarin sjö ár og hreinn hagnaður á síðasta ári jókst um 16,7% frá árinu á undan og varð um 64 milljarðar króna. Á þessu ári reikna stjórnendur Suzuki með 8,2% framleiðsluaukningu og að árleg bílaframleiðsla fari yfir 2,4 milljónir bíla. Þá er reiknað með 22% aukningu í mótorhjólaframleiðslunni og að framleiðslan í ár nemi 3,75 milljónum mótorhjóla, stórra og smárra. Á síðasta reikningsári fjölgaði starfsfólki Suzuki um fimm þúsund manns og alls starfa nú hjá fyrirtækinu 45.510 manns.