Suzuki innkallar 329 Jimny jeppa

Neytendastofu hefur borist tilkynning frá Suzuki bílum hf. um að innkalla þurfi 329 Suzuki Jimny bifreiðar af árgerð 2018-2020. Ástæða innköllunarinnar er mögulegur hönnunargalli í raflögnum í hurðum að framan.

Raflagnir geta skemmst við það að opna og loka hurðum. Þ.a.l. geta hliðarloftpúðar og stefnuljós í hliðarspeglum orðið óvirk.

Neytendastofu barst einnig tilkynning vegna framleiðslugalla á eldsneytisdælu en um er að ræða 19 Jimny bifreiðar árgerð 2018.

Viðkomandi bifreiðareigendum verður tilkynnt um innköllunina bréfleiðis.

Neytendastofa hvetur bifreiðaeigendur til að fylgjast vel með hvort að verið sé að innkalla þeirra bifreiðar og hafa samband við umboðið ef þeir eru í vafa.