Suzuki Swift er bíll ársins á Íslandi 2006

The image “http://www.fib.is/myndir/Billarsins.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Bíll ársins á Íslandi 2006 er Suzuki Swift. Það er Bandalag íslenskra bílablaðamanna (BÍBB) sem stendur að vali á bíl ársins og var niðurstaðan kynnt í Perlunni í gær. Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra afhenti umboðsaðila bíls ársins farandgripinn Stálstýrið, viðurkenningu BÍBB.
Valið á bíl ársins fór þannig fram að valinn var bíll ársins í fjórum bifreiðaflokkum; flokki smábíla og millistærðarbíla, í flokki stórra fólksbíla og lúxusbíla, í flokki jeppa og jepplinga og í flokki sportbíla. Suzuki Swift varð efstur í fyrstnefnda flokknum, í þeim næsta var Volkswagen Passat efstur, í flokki jeppa og jepplinga varð Lexus RX400h efstur og í flokki sportbíla sigraði BMW M5.
Valið á bíl ársins var tilkynnt á sýningu sem stóð um helgina í Perlunni á bílum sem eru sérlega sparneytnir og mengunarlitlir. Umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir sagði við þetta að sér væri það sérstök ánægja að veita þessa viðurkenningu á sýningu þessara umhverfisvænu bíla. Hún minnti á að sl. vor hefði alþingi ákveðið sérstök og lægri vörugjöld af bifreiðum sem nota umhverfisvæna orku. Fyrri afsláttur hefði þá verið tvöfaldaður.
The image “http://www.fib.is/myndir/Domnefnd.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Dómnefndin sem valdi bíl ársins 2006.  f.v. Stefán Ásgrímsson, Sigurður Már Jónsson, Guðjón Guðmundsson, Ómar Ragnarsson, Njáll Gunnlaugsson, Sigurður Hreiðar Hreiðarsson og Steinunn Stefánsdóttir.