Svart svínarí - ofur álagning olíufélaganna

Í byrjun ársins var álagning olíufélaganna á bensínlítrann um 40 krónur í sjálfsafgreiðslu. Núna hirða þau um 70 krónur á lítrann. Félögin leyna þessari hækkun í skjóli þess að verð hafi hækkað á heimsmarkaði. En það verð hefur snarlækkað og er nú það sama og í byrjun ársins. Þessi 75% hækkun álagningarinnar er ekkert annað en hreinræktað okur.

FÍB fjallaði um það í sumar að fákeppnin á olíumarkaði kallaði á inngrip stjórnvalda til þess að tryggja sanngjarnara eldsneytisverð til neytenda. Á stærri mörkuðum svo sem eins og í Belgíu og Danmörku er samkomulag um það á milli stjórnvalda og söluaðila eldsneytis að verðmyndunin sé gegnsæ og í samræmi við heimsmarkaðsverð og gengisþróun.

Andvaraleysi stjórnvalda gagnvart þessari alvarlegu sjálftöku olíufélaganna er yfirþyrmandi. Hátt eldsneytisverð hefur bein áhrif á verðbólgu. Þess vegna hefðu Seðlabankinn, Samkeppniseftirlitið, Neytendastofa, neytendamálaráðherra og fjármálaráðherra átt að berja bumbur. En þaðan heyrist ekki múkk. FÍB er eini aðilinn sem stendur vaktina fyrir neytendur í þessum efnum.