Sveinn Torfi Sveinsson verkfræðingur

Í dag var jarðsettur frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði Sveinn Torfi Sveinsson verkfræðingur fyrrum formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda.  Hann var formaður FÍB á árunum 1952 til 1956.  Sveinn Torfi starfaði með FÍB í yfir hálfa öld, hugsaði stórt og fór ekki alltaf hefðbundnar leiðir að settu marki.  Sveinn Torfi var heiðursfélagi í FÍB og var einnig sæmdur gullmerki félagsins fyrir áratuga óeigingjarnt starf í þágu þess.  

Sveinn Torfi tók við formennsku FÍB á tímum innflutningshafta og gjaldeyrisskorts.  Undir forystu hins unga og framfarasinnaða verkfræðings tvíefldist félagið.  Sveinn stundaði framhaldsnám í verkfræði við Kaupmannahafnarháskóla á fimmta áratug síðustu aldar, eftir stríð og ferðaðist á þeim árum vítt og breytt um Evrópu.  Hann kynntist þeirri miklu uppbyggingu sem átti sér stað á stríðshrjáðum svæðum.  Hið mikla uppbyggingastarf í Þýskalandi, þegar landið reis úr stríðsrústum til nútíma efnahagsundurs, heillaði Svein Torfa og sannfærði hann um að með hugviti og framtakssemi væri vel hægt að yfirstíga hindranir.  Sveinn hugsaði stórt fyrir hönd þjóðar sinnar og var staðfastur í trúnni á betri framtíð fengi einstaklingsframtakið að njóta sín.  

  

Sveinn Torfi Sveinsson var sæmdur gullmerki FÍB árið 2005. Milli hans og Runólfs Ólafssonar framkvæmdastjóra er merki félagsins sem einmitt Sveinn Torfi lét hanna í formannstíð sinni.

 


FÍB naut framsýni Sveins Torfa og hann öflugur. óþreytandi og ódeigur talsmaður þess frelsis sem bíllinn getur veitt til hvers konar athafna, vinnu, ferðalaga og skemmtunar.  FÍB varð að landsfélagi í formannstíð Sveins og félagsmönnum fjölgaði úr um 400 árið 1952 í um 1100 þegar hann kaus að láta af formennsku árið 1956.  Sveinn Torfi vann af krafti  gegn þeim höftum og ríkisforsjá sem ríkjandi var hér á landi meðan hann var formaður og löngum seinna.   Margir þjónustuþættir sem FÍB er þekkt fyrir í dag rekja upphaf sitt til formennskutíðar hans má þar m.a. nefna vegaþjónustu, gæðakröfur á bifreiðaeldsneyti og baráttuna gegn ofursköttun fjölskyldubílsins langt umfram framkvæmdakostnað við umferðarmannvirki.  Sveinn Torfi var einnig alltaf stoltur af því að undir hans formennsku var félagsmerki FÍB hannað og framleitt.

Sveinn Torfi hvatti til framsýni í vegagerð og var einn af frumkvöðlum þess að farið var að leggja olíumöl á vegi og götur hér á landi sem var bylting í gerð slitlags á tímum óvandaðra malarvega og torfærra slóða.  Hann skrifaði fjölda greina um hugðarefni sín s.s. vegamál, umferðaröryggi og bíltækni.  

Stjórn og starfsfólk Félags íslenskra bifreiðaeigenda kveður með söknuði  sterkan liðsmann og leiðtoga sem alla tíð hafði hag bifreiðaeiganda að leiðarljósi. Félagið vottar afkomendum og ástvinum Sveins Torfa Sveinssonar samúð sína.