Sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu loks að vakna?

Það hefur óneitanlega vakið nokkra furðu að meðan sveitarstjórnir á Reykjanesi, á Vesturlandi og í Árnessýslu hafa mótmælt fyrirhuguðum vegatollum inn á og út af höfuðborgarsvæðinu, hefur ekkert heyrst um þetta alvarlega mál frá stjórnum og stjórnendum Reykjavíkur, Seltjarnarness, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Álftaness og Mosfellsbæjar, hvorki hósti né stuna - þar til nú.

Sl. fimmtudag 6.janúar kom bæjarráð Kópavogs saman til fundar og þar bar vegatollamálið á góma. Ármann Kr. Ólafsson lagði fram ályktunartillögu á fundinum um málið. Hún er þessi: „Bæjarstjórn skorar á ráðherra samgöngumála að draga til baka allar hugmyndir um vegtolla á akstur bifreiða til og frá höfuðborgarsvæðinu."
Samþykkt var að vísa tillögunni til bæjarstjórnar og má búast við að hún afgreiði tillöguna fljótlega.