Svíar og Rússar hjálpast að við að fækka umferðarslysum

http://www.fib.is/myndir/Russland1.jpg
Rússneskir vegir eru æði misjafnir eins og sjá má af þessari mynd og öðrum sem þessari frétt fylgja.

Dauðaslysatíðni í umferðinni er einna lægst í heiminum í Svíþjóð. Svíar hafa í hátt í hálfa öld verið í fararbroddi í smíði öruggra bíla og hverskonar öryggisbúnaðar í bíla. Minnt skal á í þessu sambandi að þriggja punkta öryggisbeltin í bílum nútímans eru sænsk uppfinning og komu sem staðalbúnaður í Volvo – fyrstum bíla. Þá er Volvo einn fyrsti bílaframleiðandi, ef ekki sá fyrsti í heiminum, til að taka upp markvissar árekstursprófanir á bílum sínum í því skyni að gera þá öruggari.

Í seinni tíð hefur athyglin í vaxandi mæli beinst að vegunum sjálfum og þætti þeirra í vernd lífs og lima þeirra sem um þá fara. Svíar hafa líka verið í fararbroddi í þessum efnum og því er eftirspurn annarsstaðar í heiminum eftir ráðgjöf þeirra í umferðaröryggismálum almennt, m.a. frá Rússlandi.

Í gær var á vegum sænskra og rússneskra stjórnvalda haldin námsstefna í Moskvu um umferðaröryggi en með ört stækkandi bílaflota í Rússlandi og frumstæðu vegakerfi víða, hafa umferðarslys tekið sístækkandi toll. Vilji bæði Rússa og Svía stendur því til að leita leiða til að gera umferðina öruggari enda færast ferðalög þjóðanna í hvors annars löndum sífellt í aukana.

Meðal þeirra sem stóðu að námsstefnunni í gær voru bæði Volvo fyrirtækin í Svíþjóð, þ.e.a.s. Volvo fólksbílar og Volvo vörubílar og sænska verslunarráðið auk opinberra stofnana eins og sænska umferðarráðsins, vegagerðarinnar og VTI rannsóknastofnunarinnar. Megintilgangurinn með stefnunni var að hefja miðlun og skipti á upplýsingum og sérfræðilegri þekkingu milli Svía og Rússa.

Sænsk bílaframleiðsla hefur alla tíð haft öryggismálin í forgrunni og meir en 70 ár eru síðan stjórnendur Volvo lýstu því yfir velferð og öryggi fólksins í bílnum væri leiðarljósið í bílaframleiðslu fyrirtækisins. 
Volvo hefur æði oft komið fyrstur bílaframleiðenda með tækni til að auka öryggi fólksins í bílnum. Meðal þess má nefna sérstyrkta yfirbyggingu (veltibúr) sem ekki leggst saman við veltu eða árekstur og lagskipta framrúðu. hvorttveggja kom fyrst fram árið 1944 í Volvo PV 444, eða Volvo „kryppunni“ sem síðar hét PV 544 og var undanfari Volvo Amazon.

Þriggja punkta öryggisbeltin komu fyrst fram í Volvobílum árið 1959. Þriggja punkta öryggisbeltin eru sú uppfinning sem bjargað hefur fleiri mannslíkum í heiminum en nokkur önnur tækniuppfinning nokkru sinni. 
Af öðrum búnaði sem Volvo hefur komið fyrst fram með má nefna undirakstursvörn bæði framan og aftan á vörubíla sem kemur I veg fyrir að bílar fari undir vörubíla er árekstur verður, áfengismæli sem hindrar að bíllinn fari í gang ef ökumaður er fullur og rúllu-öryggisbelti með sjálfvirkri læsingu sem komufyrst fram í Volvo bílum árið 1979.
http://www.fib.is/myndir/Russland2.jpg http://www.fib.is/myndir/Russland3.jpg http://www.fib.is/myndir/Russland4.jpg http://www.fib.is/myndir/Russland5.jpg http://www.fib.is/myndir/Russland6.jpg