Svíar vilja aftur eignast Volvo fólksbílaframleiðsluna

http://www.fib.is/myndir/Volvo-logo.jpg

Sænska dagblaðið Dagens Industri segir frá því að sænska félagið Volvo AB hafi áhuga á því að kaupa aftur fyrirtækið Volvo Personvagnar (Volvo fólksbílar) sem það seldi Ford fyrir margt löngu.

Ford sem á við mikinn vanda að stríða og stendur í dýrri endurskipulagningu í Bandaríkjunum, hefur þurft að selja ýmsa þætti starfseminnar frá sér og til stendur að selja með haustinu bæði Land Rover og Jaguar. Rekstur Volvo skilar hins vegar Ford ágætum hagnaði þessa stundina þannig að blaðið telur ekki að Ford muni láta Volvo frá sér með neinni sérstakri gleði. Það muni þó hugsanlega neyðast til þess, en varla fyrr en búið er að selja bæði Land Rover og Jaguar. Fyrr í vor seldi Ford meirihluta í Aston Martin frá sér.

Meðan Volvo Personvagnar er í eigu Ford, er Volvo Lastvagnar (Volvo vörubílar) í eigu móðurfélagsins Volvo AB í Svíþjóð. Vörumerkið Volvo er því í þeirri skrýtnu stöðu að vera í eigu tveggja aðila. Rekstur Volvo Lastvagnar skilar mjög góðum hagnaði, en fyrirtækið er ásamt dótturfyrirtækjum m.a. White í Bandaríkjunum, eitt stærsta vörubílaframleiðslufyrirtæki í heiminum.  Þar á bæ þykir mönnum því eðlilegt að leita eftir því að kaupa fólksbílaframleiðsluna til baka af Ford.

Renault í Frakklandi á um fimmtung í Volvo Lastvagnar og bílamenn þykjast greina mikinn áhuga hjá Renault á því að sameina Volvo fólksbíla- og vörubílaframleiðsluna. Með því kæmist Renault með fólksbíla sína inn í ágætt dreifikerfi Volvo í Bandaríkjunum en Renault á þessa stundina engan aðgang með fólksbíla sína að bandaríska bílamarkaðinum.