Svíi tekinn á 320 í Sviss

Nýlega var sænskur ökumaður á Mercedes SLS AMG sportbíl stöðvaður eftir að hafa ekið á 320 km hraða. Leyfður hámarkshraði á veginum er hins vegar 120. Málið er nú fyrir svissneskum dómstóli. Bíllinn var gerður upptækur á staðnum og maðurinn fluttur á lögreglustöð til yfirheyrslu en sleppt að henni lokinni. Ljóst þykir að dómstóllinn staðfesti upptöku bílsins og til viðbótar verði manninum gert að greiða sekt upp á tæpan milljarð íslenskra króna.

 Svíinn er 37 ára gamall. Hann var nýbúinn að kaupa bílinn og var að prófa hvað hann gæti þegar hann náðist á hraðamyndavél á hraðbraut við bæinn Fribourg sunnan við Bern.

 Þýska dagblaðið Die Welt greinir frá þessu og segir að lögregla hafi gert bílinn upptækan á staðnum og vísað málinu síðan til dómstóls sem muni nánast örugglega staðfesta upptöku bílsins og ákveða sektarupphæð að auki. Sektin muni líklega verða í kring um 1,08 milljón svissneskir frankar. Sektarupphæðin er tekjutengd og upphæðin ræðst af tvennu: -hversu brotið telst alvarlegt og framtöldum tekjum brotamannsins á síðasta framtalsári.

 Rétt er að minna á að í nokkrum löndum eru sektir við umferðarbrotum ákvarðaðar í samhengi við tekjur brotafólksins. Hátekjufólki er þannig gert að greiða háar sektir, miklu hærri en lágtekjufólki. Sviss er eitt þessara ríkja og Finnland er annað.