Svínið orðið að svani

http://www.fib.is/myndir/NeilYoung.jpg
Neil Young.

Í frétt okkar hér á FÍB vefnum þann 9. Júní í vor var sagt frá því að Neil Young stór-rokkari væri að láta breyta gömlum Lincoln Continental Mark IV árgerð 1959 í tengiltvinnbíl með Wankel-vél frá Mazda sem ljósamótor. Wankel-vélin gengur fyrir gasi.

Nú er þessu verki lokið og gamli Lincolninn sem nú heitir Linc-Volt er kominn á götuna á ný og Neil Young segir við bandaríska fréttamiðla að hann sé miklu eyðslugrennri, hljóðlátari og aflmeiri en áður. Með gömlu átta strokka vélinni frá 1959 var eyðslan á langkeyrslu minnst 28 lítrar á hundraðið en í borgarsnattinu á þessum tveggja og hálfs tonns þunga bíl gat hún auðveldlega orðið helmingi meiri, eða tæplega 60 lítrar af bensíni á hundraðið. Neil Young segir við CNN að nú geti eyðslan farið niður í það sem svarar til þriggja lítra af bensíni á hverja 100 km. að því gefnu að lagt sé upp með fullhlaðna rafgeymana.

Hver eyðslan svo verður í raunverulegri notkun á sjálfsagt eftir að koma í ljós, en ætlunin er að aka honum frá Wichita í Kansas þar sem honum var breytt, til Detroit, heimaborgar þjóðlega bandaríska bílaiðnaðarins sem nú berst í bökkum og er við það að verða gjaldþrota.

Neil Young sem upphaflega er Kanadamaður, er mikill áhugamaður um stóra ameríska bíla. Hann hefur nú stofnað nýtt fyrirtæki sem hann nefnir Link-Volt Technology, eftir Linvolninum góða eftir breytingu. Fyrirtækið á að fást við samskonar breytingar á fleiri bílum. Með því vill hann örva áhuga fólks með sömu bílaáhugamál og hann sjálfur hefur, til að breyta gömlu bensíngleypunum í umhverfismilda bíla. http://www.fib.is/myndir/NeilYoungwithLincolnVolt.jpg

Áður en Neil Young fór út í breytinguna á Lincolninum hafði hann látið breyta tveimur öðrum bílum í sinni eigu þannig að nú er þeim ekið á notaðri steikingarolíu. Annar þessara bíla er Mercedes Benz dísilfólksbíll, hinn er Hummer dísilbíll. Í tengslum við þær breytingar komst hann í samband við Jonathan nokkurn Goodwin og fyrrtæki hans H-Line Conversions í Wichita í Kansasríki.

Eftir breytinguna er semsé átta strokka vélin farin. Í hennar stað er kominn rafmótor og rafall knúinn Wankelmótor úr Mazda RX7 og gengur Wankelvélin fyrir gasi. Aflvél bílsins er rafmótorinn. Hann sækir rafmagn til lþiþíum rafgeyma. Bílnum er stungið í samband við rafmagnsinnstungu og  þegar lækka tekur á rafgeymunum fer ljósavélin – Wankelmótorinn í gang og byrjar að hlaða inn á geymana.