T25/27 á markað 2016

Ofurbílahönnuðurinn Gordon Murray sem starfar í Bretlandi hefur náð samningum um framleiðslu á smábílnum T25/T27. Hann greinir frá þessu á heimasíðu sinni og segir að vænta megi bílsins á markað 2016. Ekkert er sagt um hver framleiðandinn sé né hvar.

T25 og T27 eru í raun sami bíllinn nema að sá síðarnefndi er rafknúinn. Það er ekki aðeins bíllinn sjálfur sem Murray hannaði, heldur allt „líf“ bílsins frá upphafi til enda, framleiðsla hans og flutningakerfi. Meginmarkmiðið með þessu er að kolefnisfótspor bílisins verði sem allra allra minnst. Þá er átt við alla framleiðslu og notkun bílsins, aðdrætti verksmiðjanna og flutninga til kaupenda. Framleiðslan sjálf á að krefjast miklu minni orkunotkunar en áður hefur þekkst í bílaiðnaðinum. Bílinn á að flytja að mestu ósamsettan til kaupenda í pakkningum sem minna á IKEA-innréttingar.

Sjálfur bíllinn verður byggður upp svipað og Formúlubílar eru byggðir nema að í stað rándýrra koltrefjaefna eru ódýrari efni notuð. Þannig er yfirbygging bílsins gerð úr plasti sem er að stærstum hluta endurnýttar gosdrykkjaflöskur.

Innanrýmið er hannað á svipaðan hátt og í ofursportbílnum McLaren F1 sem Murray hannaði á sínum tíma. Ökumaðurinn situr fremst fyrir miðju en tö farþegasæti eru til hliðar og aftan við hann.

Væntanlegur framleiðandi hefur nú ásamt framleiðsluréttinum eignast allar þær frumgerðir bílsins sem til voru. Þær hafa reyndar komið víða fram á undanförnum árum og meðal annars sigrað í þekktri stórri breskri sparaksturskeppni. Þá hefur bíllinn sést í bresku skemmtiþáttunum TopGear.