Tækni þróuð gegn bílveiki

Bílar Jaguar Land Rover munu í nánustu framtíð geta fylgst með og brugðist við séu farþegar í bílunum við það að verða bílveikir. Um 70% fólks finna fyrir ógleði af völdum ferðaveiki, hvort sem er í bíl, les, skipi eða jafnvel tívolítækjum, og eru börn stærsti áhættuhópurinn.

Spencer Salter, heilsufræðingur hjá Jaguar Land Rover, segir í raun fremur lítið vitað um ástæður ferðaveiki og hvernig sé árangursríkast að bregðast við henni. Almennt er ástæða veikinnar þó sú að heilanum berast misvísandi boð frá hinum ýmsu skynfærum líkamans.

Hjá Jaguar land Rover hefur að undanförnu verið unnið að verkefnum til að komast nær ástæðum veikinnar til að þróa sem árangursríkastar aðferðir til að koma í veg fyrir hana. Reiknilíkön í algóriþma eru meðal aðferða sem fyrirtækið beitir til að greina líðan farþega og er algóriþminn yfirfærður á stjórntölvu bíla sem aðlagar þá aksturinn og ýmsar stillingar í farþegarýminu til að draga úr líkum á vanlíðan. 

Hægt að minnka um 60%

Á undanförnum mánuðum hafa tæknisérfræðingar fyrirtækisins unnið að tilraunum sem spanna um 25 þúsund kílómetra akstur og benda niðurstöðurnar til að sú tækni sem fyrirtækið vinnur með geti fækkað tilfellum bílveiki um 60%.

 Meðal tilrauna sem gerðar voru var að fylgjast með líðan farþega sem voru að lesa og skrifa tölvupóst á bílferðalagi. Líklegt er að tölvuvinna muni vaxa samfara aukinni sjálfvirkni bíla og er því mikilvægt að þróa árangursríkar aðferðir sem dragi úr líkum á bílveiki.

Bílar Jaguar Land Rover eru nú þegar búnir ýmissi tækni sem draga úr líkum á bílveiki. Til dæmis geta farþegar Jaguar E-Pace valið um 26 mismunandi stillingar sem hafa áhrif á sætin. Sumar hafa þann tilgang t.d. að stilla sætisstöðuna í sem hagkvæmastri augnhæð við snertiskjá bílsins á meðan aðrar stjórna hita og kælingu sætanna. Reynslan sýnir að hvort tveggja hefur áhrif á bílveiki.