Tæplega hálf milljón bíla frá VW innkallaðir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð

Volkswagen AG í Wolfsburg hefur kynnt aðgerðaáætlun um að innkalla þá dísilbíla sem forritaðir eru með falshugbúnaðinum sem virkjar útblásturshreinsun einvörðungu þegar mengunarmæla á bílana. Málið hefur stöðugt undið upp á sig síðan upp komst um svindlið í Bandaríkjunum þar sem tæp hálf milljón bíla á í hlut. En málið nær til bíla annarsstaðar í heiminum líka og Volkswagen upplýsti í byrjun vikunnar að umræddur hugbúnaður væri í 11 milljón bílum. Nú hefur sú tala hækkað og nýjustu tilgátutölur segja bílana vera tæpar 20 milljónir.

Volkswagen í Danmörku hefur greint frá því að þar í landi séu 91 þúsund bílar sem verði innkallaðir. Af þeim fjölda eru 58 prósent Volkswagen bílar, 16 prósent eru Audi, 18 prósent Skoda og 8 prósent Seat.

Volkswagen í Svíþjóð hefur einnig tilkynnt fjöldann þar. Hann er samtals 224.746 bílar. Þar af eru Volkswagenbílarnir 104.227, Audibílar eru 57.367, Skodabílar eru 28.430, Seat: 2.162. Loks eru Volkswagen sendibíla 32.560. Þær dísilvélar sem í þessum bílum eru og um ræðir, hafa gerðarauðkennið EA 189. Aðrar vélargerðir tengjast ekki þessu máli. Rétt er að geta þess að allir bílar með EA 189 vélar eru tæknilega fyllilega í lagi. Hugbúnaðurinn umræddi hefur engin áhrif á aksturshæfni þeirra né endingu.

Í Noregi eru bílarnir sem innkallaðir verða, 147.139. Flestir bílanna eru af Volkswagen gerðum eða 77.580. Audi bílar eru 27.649, VW sendibílar eru 21.963 og Skoda: 19.947

Enn hafa engar tölur um fjölda bílanna á Íslandi verið útgefnar. Á heimasíðu Heklu, innflytjanda bíla frá VW samsteypunni er enn sem komið er aðeins finna á íslensku tilkynningu frá Volkswagen í Wolfsburg frá 23. sept. sl. Hlekkir eru auk þess inn á óþýddar tilkynningar. Sú nýjasta er frá 29. september.