Tafir og hættuástand á þjóðvegavegamótum í Reykjavík

Mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og reyndar fleiri erfiðum og varasömum vegamótum í þéttbýlinu hafa verið slegin af í nýlega samþykktu aðalskipulagi Reykjavíkur. Þau eru hins vegar enn inni á svæðisskipulagi. Fram kom í frétt á Stöð 2 28. janúar að svæðisskipulagið sé aðalskipulaginu yfirsterkara. Því má ætla að ef nýr borgarstjórnarmeirihluti í vor teldi rétt að bæta umferðarflæðið og minnka slysahættu á þessum þjóðvegamótum, þá ætti svosem fátt að vera því til fyrirstöðu.

Meirihluti núverandi kjörinna borgarfulltrúa Reykjavíkur hefur þá yfirlýstu stefnu að draga sem mest úr umferð bifreiða í borginni og þétta byggð. Þessi stefna er að mestu óháð því hvaða flokkum og framboðum borgarfulltrúarnir tilheyra. Þverpólitísk samstaða virðist hafa náðst í borgarstjórn um að valda fólki á bílum sem mestum vanda. Fólkið skal losa sig við bílinn og skal út að hjóla og ferðast með strætisvögnum.

Og verkin eru látin tala í atlögunni gegn fólkinu á bílunum:

   -Nýbyggingar eru hannaðar í grónum hverfum, gjarnan þeim þéttbýlustu, og bílastæði eru höfð vel innan við eitt á hverja íbúð.

   -Gjaldskyldum svæðum fyrir bíla er fjölgað mjög.

   -Ríflega 100 milljónir á ári eru notaðar til að búa til hraðahindranir og þrengingar í götur, ekki síst stofnbrautir, til trafala fyrir umferð bifreiða. Gott dæmi um þetta eru breytingarnar á Hofsvallagötu sl. haust sem nú hafa að mestu verið afturkallaðar. Önnur dæmi sem enn eru við lýði eru Snorrabraut og Borgartún.

   -Ekkert er gert í því að stjórna flæði umferðarinnar eftir magni og ekkert rafrænt kerfi fyrirfinnst til þess.

   -Umferðarljós eru lítt samhæfð sem eitt og sér veldur löngum töfum og hættu og eykur stórlega óþarfan eldsneytisbruna og mengun og kostnað einstaklinga og samfélags.

   -Loks skal telja samning við innanríkisráðuneytið um að Vegagerðin kosti reiðhjóla- og göngubrýr og leggi árlega á áttunda hundrað milljóna til styrktar almannasamgöngum um allt höfuðborgarsvæðið en láti það það í staðinn algerlega eiga sig næstu tíu árin að endurbæta, viðhalda og endurnýja þjóðvegina innan höfuðborgarmarkanna. Engu er líkara en útrýma skuli bílnum úr borginni með illu ef ekki vill betur.

Stöð 2 hefur undanfarið fjallað myndarlega um þessi mál og hversu alvarlegt ástandið getur orðið á einum helsta þjóðveginum í Reykjavík sem er Hringbrautin-Miklabrautin. Í kvöldfréttum þann 27. jan. var sýnt hversu alvarlegt og hættulegt ástand verður á mótum þjóðveganna Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar á háannatímanum á morgnana. Fram kom hjá Ólafi Bjarnasyni svokölluðum samgöngustjóra borgarinnar að af borgarinnar hálfu yrði ekkert aðhafst: „…við þurfum bara að hvetja alla ökumenn til þess að sýna ábyrgð í umferðinni og skapa ekki hættu…“ sagði samgöngustjórinn.