Taka ofurhækkanirnar við Leifsstöð gildi á föstudag?

Svo virðist sem ofurhækkanir Isavia á bílastæðagöldum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli eigi að taka gildi á föstudaginn kemur, þann 1.apríl. Stjórn FÍB hefur mótmælt hækkununum í bréfi sem sent var stjórn og forstjóra Isavia, innanríkisráðherra og fjármálaráðherra 12. febrúar sl. Hvorki Isavia né fjármála- og innanríkisráðherra hafa virt FÍB svars.

Viðbrögð ofannefndra ráðandi aðila hafa verið þau ein að staðfesting á móttöku erindis stjórnar FÍB barst 25, febrúar frá Stefáni Jónssyni verkefnastjóra hjá Isavia í tölvupósti. Þar sagði að stjórn Isavia myndi fjalla um erindi FÍB á fundi 3. mars.

Ritstjórn FÍB blaðsins/FÍB frétta sendi þvínæst Stefáni Jónssyni verkefnastjóra þennan tölvupóst 17. mars:

„Til stjórnar FÍB hafa engin svör borist nein svör frá stjórn Isavia við  spurningum (meðf. í viðhengi)  um stórhækkuð bílastæðagjöld við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli sem taka eiga gildi 1. apríl nk. Erindið var dagsett 12. febrúar sl og  þann 25. febrúar staðfesti Stefán Jónsson verkefnastjóri hjá Isavia í tölvupósti til framkvæmdastjóra FÍB að erindið væri móttekið og yrði fjallað um það á stjórnarfundi Isavia 3. mars sl.

Var það gert og ef svo, hver var niðurstaða stjórnar Isavia?“

Ekkert svar hefur borist við þessu erindi. Því sendi framkvæmdastjóri FÍB Stefáni verkefnastjóra þetta erindi í gær:

„Nú eru liðnir 26 dagar frá því að taka átti fyrir í stjórn Isavia ályktun stjórnar FÍB frá 12. febrúar 2016 um fyrirhugaða ofurhækkun bílastæðagjalda við Leifsstöð.  Fyrir liggur að upplýsingalög eiga við um starfsemi Isavia.  Þetta fálæti stjórnar Isavia gagnvart erindi stjórnar FÍB og um leið gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins er með öllu óásættanlegt. 

FÍB er neytendafélag vegfarenda og hefur innan sinna vébanda um 16 þúsund fjölskyldur.  Samkvæmt gögnum er allt að 20% fólksbifreiða í umferð með félagstengingu við FÍB.

Hvað er að frétta?“