Takata loftpúðarnir

Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA hefur krafist þess að loftpúðaframleiðandinn Takata og fimm bílaframleiðendur víkki út svæðisbundnar innkallanir vegna gallaðra loftpúða og innkalli alla bíla, alls staðar í Bandaríkjunum með Takata loftpúða. Innkallanir vegna loftpúðanna hafa hingað til náð til 4,1 milljónar bíla á heitum og rökum landsvæðum, eins og Florida, Alabama, Mississippi, Georgia, Louisiana og þess hluta af Texas sem liggur að Mexíkóflóa.

Fimm dauðsföll eru rakin til Takata loftpúðanna. Þau urðu þannig að þegar púðarnir sprungu út skaut sprengibúnaðurinn málflísum og –brotum í andlit og háls þeirra sem fyrir urðu. Fjögur þessara dauðsfalla urðu í Bandaríkjunum að sögn Reuters fréttastofunnar. NHTSA hefur sakað Takata um að draga lappirnar varðandi innköllun á landsvísu og sagði að fyrirtækið yrði að vera opið gagnvart almenningi og upplýsa hann um hversu háskalegir loftpúðarnir væru og hversvegna.