Tata græðir

Indverska bílaframleiðslufyrirtækið sem framleiðir heimsins ódýrasta bíl; Tata Nano, var rekið með góðum hagnaði á nýliðnum ársfjórðungi. Tata á og rekur Land Rover og það er ekki síst Land Rover framleiðslan sem skilaði hagnaðinum í hús.

Tata er fjölskyldufyrirtæki og forstjórinn og höfuð fjölskyldunnar heitir Ratan Tata. Hann er arkitekt og viðskiptafræðingur, menntaður við Harvard og Cornell háskólana í Bandaríkjunum. Hann hyggst nú setjast í helgan stein eftir farsælan feril og er nýs stjórnanda Tata fyrirtækjanetsins nú leitað.

Land Rover jepparnir, ekki síst gamli Defender og Jaguar þykir mörgum vera breskustu farartæki sem um getur. Bæði vörumerkin eru nú komið í eigu Tata og til stendur að flytja framleiðsluna til Indlands og Kína. Þegar Tata keypti merkin af Ford fyrir fáum árum, töldu margir að Tata ætti eftir að fara flatt á fjárfestingunni. Annað er nú að koma í ljós því að um það bil 80 prósent þess 348 milljón dollara hagnaðar af bílaframleiðslu Tata sem nú er orðinn, kemur af framleiðslu Land Rover og Jaguar.