Tata Megapixel

Tata Megapixel er áhugaverður hugmyndarbíll að litlum borgarbíl. Hann var til sýnis á bílasýningunni í Genf sem nú er lokið. Hið sérstaka við hann er að fjórir rafmótorar, einn við hvert hjól, knýja hann áfram og lítil eins strokks 300 rúmsm, 30 hestafla bensínrafstöð sér honum fyrir straumi þegar rafmagn á geymunum þrýtur.

Á straumnum á fullhlöðnum rafgeymum kemst bíllinn 87 kílómetra en rafstöðin fer í gang þegar þeir tæmast.  Megapixel er fyrst og fremst hugsaður sem borgarfarartæki. Hann er fjögurra manna. Á hvorri hlið hans eru tvær rennihurðir. Enginn dyrapóstur er í milli þeirra þannig að aðgengi er mjög gott eins og sjá má af myndinni hér til hliðar.

http://www.fib.is/myndir/Tata-meg-opinn.jpg

Rafmótorarnir fjórir eru beintengdir við hvert og eitt hjól. Þeir fylgja því öllum hreyfingum hjólanna og má því búast við að bíllinn sé talsvert hastur. Hver mótor er 10 kW að afli (14 hö.). Þessi litli og tiltölulega létti bíll ætti því að vera ágætlega viðbragðssnöggur. Hann leggur sérlega vel á og er þvermál beygjuhrings hans einungis 5,6 metrar.

Ekki er líklegt að Megapixel fari nokkru sinni í fjöldaframleiðslu í þeirri mynd sem hann var sýndur í Genf á dögunum. Bíll með rafmótora í hverju hjóli og risadyr þykir einfaldlega ekki raunhæfur, ekki síst í öryggislegu tilliti. Bílafréttamönnum finnst hins vegar líklegt að hann sé einskonar undanfari eða framtíðartilvísun til þess sem megi búast við þegar Tata byrjar sókn inn á evrópskan bílamarkað. Mjög fáir Tata bílar fyrirfinnast í Evrópu. Flestir þeirra eru í Bretlandi og á Ítalíu. Segja má þó að Tata sé samt með nokkuð trausta fótfestu í álfunni, því að Tata á bæði Jaguar og Land Rover í Bretlandi.