Tekjur ríkis­sjóðs af elds­neytis­gjöldum og vöru­gjöldum öku­tækja lækka

Tekjur ríkis­sjóðs af elds­neytis­gjöldum og vöru­gjöldum öku­tækja munu lík­lega lækka um tuttugu milljarða króna á þessu ári vegna örrar fjölgunar raf­bíla hér á landi. Þetta herma heimildir Frétta­blaðsins. Vinna er hafin í fjár­mála­ráðu­neytinu við að breyta gjald­töku af bif­reiðum eftir öra fjölgun raf­bíla hér á landi, sem er sam­kvæmt bjart­sýnustu vonum. Þetta kemur fram í umfjöllun í Fréttablaðinu í dag.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB,  segir í samtali við Fréttablaðið að raf­bíla­væðingin hér á landi hafi gengið eftir sam­kvæmt bjart­sýnustu spám. Ís­lendingar eru nú næstir á eftir Norð­mönnum í fjölda raf­bíla á móts við bif­reiðar sem nota jarð­efna­elds­neyti,“ bætir hann við.

„Það eina sem háir enn frekari raf­bíla­væðingu hér á landi er við­varandi skortur á raf­bílum,“ segir Runólfur. Engu að síður jókst sala raf­hlöðu­­knúinna bíla í Evrópu um 63 prósent á síðasta ári, en vel ríf­lega milljón raf­bílar seldust þá í álfunni og markaðs­hlut­deildin var tíu af hundraði.

Tekjur ríkisins af bensín- og olíu­gjaldi hefur löngum verið gildur gjald­stofn, en um helmingur af út­seldu verði þessa jarð­efna­elds­neytis sem farið hefur á tanka öku­tækja hér á landi rennur ríkis­sjóð.

Vinna er hafin í fjár­mála­ráðu­neytinu til að breyta gjald­heimtu­að­ferð af bif­reiða­flota lands­manna og er búist við að raf­bílar verði þar ekki undan­skildir. Þeir eru nú einnig undan­skildir vöru­gjöldum að öllu leyti, ef út­sölu­verð þeirra er innan sex milljóna króna og hafa heldur ekki borið virðis­auka­skatt innan á­kveðinna verð­marka.

Innan ríkis­stjórnarinnar hefur ekki að­eins verið rætt um að jafna gjöld á milli bíla­flokka, að því er heimildir Frétta­blaðsins herma, heldur hefur einnig verið rætt um aukna gjald­töku á þjóð­vegum, hringinn í kringum landið, til að mæta þverrandi tekjum af bif­reiða­elds­neyti.