Tékkar ókyrrast vegna fyrirhugaðs banns við sölu brunahreyfilsbíla frá 2035

Bann á sölu bensín- og dísilbíla mun stórskaða Skoda að mati margra Tékka. Skoda stendur undir þriðj…
Bann á sölu bensín- og dísilbíla mun stórskaða Skoda að mati margra Tékka. Skoda stendur undir þriðjundi þjóðartekna landsins og hjá Skoda starfa um 700 þúsund manns.

Þingkosningar standa fyrir dyrum í Tékklandi og kosningabaráttan stendur sem hæst. Helsta kosningamál sitjandi forsætisráðherra landsins, Andrej Babiš og flokks hans, ANO, er andstaða við þá fyrirætlan að lögbinda bann við sölu nýrra brunahreyfilsbíla í ES-ríkjunum frá og með 2035. Kosningaloforð Babiš er að krefjast verulegra breytinga á bannfrumvarpinu sem bíður afgreiðslu í Evrópuráðinu. Yrði það að lögum óbreytt myndi það, að mati Babiš stórskaða tékkneska bílaiðnaðinn sem er þjóðinni mjög mikilvægur. Þetta kemur fram í Auto News.

    Á kosningafundi (fjarfundi) nýlega sagði Babiš bannið fyrirhugaða algera endileysu og sagðist handviss um að það yrði að breyta bannfrumvarpinu verulega. -Það vita allir sem starfa í bílaframleiðslunni og næsta ríkisstjórn verður að bregðast við. Enginn ætti að geta skikkað fólk til að kaupa sér tiltekna bíla og hafna öðrum mun Babiš hafa sagt á fundinum.

    ES-tillagan um að banna brunahreyfilsbíla hefur vissulega gert Tékka órólega enda stendur heimamerkið Skoda undir þriðjungi þjóðarteknanna og tæplega 700 þúsund manns starfa hjá fyrirtækinu. En auk Skoda eru í Tékklandi verksmiðjur sem framleiða bæði Hyundai og Toyota bíla og langflestir bílanna sem framleiddir eru í landinu eru með brunahreyfla. Skoda er eini bílaframleiðandinn í landinu sem framleiðir ekki eingöngu brunahreyfilsbíla heldur líka rafbíla í verksmiðjum sínum í Mladá Boleslav. Það er jeppinn eða jepplingurinn Enyaq

    Ekki er ástæða til að ætla annað en að rödd Tékkland muni heyrast í höfuðstöðvum ES í Brussel eftir kosningarnar 8.-9. október nk. því að sú ríkisstjórn sem mynduð verður Tékklandi að þeim loknum, mun taka við forystu í Evrópuráðinu um mitt næsta ár (2022).

    Þótt forysta í ráðinu feli ekki í sér bein lagasetningarvöld þá getur Andrej Babiš og flokkur hans ANO, verði hann endurkjörinn og Babiš áfram forsætisráðherra, ráðið að nokkru dagskrá ráðsins og því hvenær og í hvaða röð mál eru tekin fyrir þar.  

    En það er ekki bara Tékkland sem maldar í móinn gegn bannfrumvarpi ES. Ríkisstjórnir bæði Þýskalands og Frakklands hafa reyndar lýst sig mótfallnar algeru sölubanni á nýja brunahreyfilsbíla 2035 og vilja að tvíorkubílar (tvinnbílar) verði leyfðir áfram en hversu lengi er ekki á hreinu enn.

Ennfremur hefur ítalska ríkisstjórnin kallað eftir sérstakri undanþágu  fyrir þá bílaframleiðendur sem byggja bíla í smáum stíl eins og t.d. Ferrari og Lamborghini.