Tesla að rétta úr kútnum

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur rafbílaframleiðandinn Tesla staðið frammi fyrir vanda en sala á bílum frá fyrirtækinu hafa ekki gengið sem skildi.

Nú gæti verið að rofa til í þeim efnum en á síðasta ársfjórðungi 2017 seldi Tesla hátt í 30 þúsund bifreiðar. Model S stóð upp úr með rúmlega helming seldra bíla og Model X kom þar rétt á eftir. Þetta er töluverður viðsnúningur frá síðasta ársfjórðungi ársins þar á undan og er um ræða 30% aukningu.

Betur má ef duga skal en fyrirtækið á enn töluvert í land að ná upp sölunni eins og að var stefnt. Forsvarsmenn Tesla eru bjartsýnir á að markmiðunum verði náð í sumar en hátt í hálf milljón kaupenda er á biðlista sem myndast hefur vegna tafa í framleiðslunni síðustu ár.

Alls seldi Tesla yfir 100 þúsund bíla á árinu 2017 sem er töluverð aukning frá árinu á undan.