Tesla bílaverksmiðja í Evrópu

Elon Musk eigandi Tesla segir við Bloomberg fréttir að hann ráðgeri að opna verksmiðjur í Evrópu og Asíu til að geta betur mætt vaxandi framtíðareftirspurn eftir Tesla rafbílum. –Við viljum staðsetja framleiðsluna sem næst viðskiptavinunum til að lágmarka kostnað við að koma bílunum í þeirra hendur, sagði Musk við Bloomberg.

Nú er orðið ljóst að framleiðsla og sala á Tesla er komin á gott skrið. Á þessu ári verða byggðir samtals rúmlega 21 þúsund Tesla S bílar. Af þeim munu nokkrir vera rétt ókomnir til Íslands. Þá hefur mesta rafbílaþjóð veraldar; Norðmenn hafa pantað um 1.500 Tesla S. Á næsta ári mun framleiðslan tvöfaldast að því áætlað er. Þá kemur fjórhjóladrifinn Tesla S á markað, sem og jepplingurinn Model X.

http://www.fib.is/myndir/Tesla-ModelS.jpg
Tesla S.

Framleiðsla á Tesla bílum fer nú einvörðungu fram í fyrrum Chevrolet verksmiðju í Freemont í Kaliforníu. Afkastageta verksmiðjunnar er eins og er hvergi nærri fullnýtt en hún er hálf milljón bílar á ári. Þrátt fyrir það telur Elon Musk að framleiðsla á ódýrari bílgerðum en lúxusbílnum S, verði að fara fram nær líklegum kaupendum í Evrópu og Asíu.

Lúxusbíllinn Tesla S hefur komist á gott flug það sem af er þessu ári. Motor Trend Magazine útnefndi hann bíl ársins í upphafi árs, hjá Consumer Report fékk hann síðan hæstu einkunn fyrir áreiðanleika og vöruvöndun og loks nýlega hlaut hann hæstu einkunn sem gefin hefur verið í árekstursprófi á vegum bandarísku umferðaröryggisstofnunarinnar National Highway Traffic Safety Administration. Í núverandi framleiðslutakti í Freemont verksmiðjunni hefst ekki undan, eftirspurn eftir Tesla S er meiri en framleiðslan.

Þennan meðbyr vill Elon Musk nýta með því að ná til líka til almennings með einfaldari og ódýrari bíl, Model E, en hann á að koma á almennan markað innan næstu fimm ára. Hann er þess fullviss að rafbílar séu loks að slá í gegn hjá almenningi og muni á allra næstu árum steyma af færiböndunum í hendur kaupenda í hundruða þúsundavís.

Ekki er ólíklegt að bílaverksmiðju Tesla í Evrópu verði fundinn staður í Hollandi sem er liggur vel við samgöngum til allra átta. Tesla hefur nefnilega þegar gangsett litla verksmiðju, þar sem settir eru saman ýmsir íhlutir í Tesla S. Þessi Verksmiðja er í háskólabænum Tilburg, norðvestur af Eindhoven.