Tesla gegn New York Times

Dagblaðið New York Times birti á dögunum grein um reynsluakstur á Tesla S rafbíl frá höfuðborginni Washington DC norður til Boston. Á leiðinni var meiningin að endurhlaða rafgeyma bílsins á hraðhleðslustöðvum sem Tesla hefur sett upp meðfram leiðinni. Niðurstaðan varð sú að bíllinn komst ekki alla leið og varð að flytja hann með kranabíl síðasta spottann. Drægi bílsins virtist þannig langt undir því sem lofað er og sama gilti um afköst hleðslustöðvanna. Sjá grein NYT hér.

Elon Musk forstjóri og aðaleigandi Tesla virtist í fyrstunni ráðvilltur og fyrstu svör hans um að blaðamaður NYT hefði kannski ekki gert hlutina samkvæmt forskrift Tesla, kannski ekið of hratt og kannski ekki haft þolinmæði til að bíða eftir að geymarnir hlæðust upp að fullu, þóttu ekki trúverðug og blaðamaðurinn stóð fast á sínu.

En þá reiddi Musk og Tesla til höggs í þessari grein. Að sjálfsögðu höfðu Tesla menn komið fyrir upptöku- og staðsetningartækjum fyrir í bílnum sem skráð höfðu hverja einustu hreyfingu bílsins í ferðinni. Og nú birtu þeir allar upplýsingarnar. Samkvæmt þeim hefur blaðamaðurinn oftast ekið mun hraðar en hann sagðist hafa ekið. Hann sagðist hafa slökkt á miðstöðinni í bílnum en upptökutækin sýna að hann hafði þvert á móti aukið hitann. Þar sem hann sagðiist hafa hlaðið geymana að fullu (100%) hafði hann einungis hlaðið þá 27% og það sýndi sig að á þeim stað sem hann sagði að geymamælarnir hefðu sýnt að þeirr væru tómir, hafði blaðamaðurinn ekið í hringi inni á bílastæði til að eyða orku.

Blaðamaðurinn er ekki jafn staðfastur í því lengur að standa við frétt sína, en getur ekki skýrt mál sitt frekar. En að sjálfsögðu hafa aðrir miðlar tekið málið upp. CNN hefur sent fréttamann á Tesla S bíl nákvæmlega sömu leið við sömu aðstæður og blaðamaður NYT. Ferðin gekk ágætlega og bíllinn komst alla leið. Og um nýliðna helgi tóku fjöldamargir eigendur Tesla S bíla sig til og óku þessa sömu leið og komust allir í mark.

Eftir þetta hefur NYT dregið talsvert í land og einn ritstjóranna hefur viðurkennt að kannski hafi blaðamaðurinn ekki verið nógu nákvæmur í akstrinum og full yfirborðskenndur í frásögn sinni.