Tesla hraðhleðslustöðvar í Evrópu

Tesla ætlar sér greinilega nokkra hlutdeild í evrópska bílamarkaðinum með rafbíla sína, ekki síst lúxusbílinn Tesla S því að ráðgerðar hafa verið hraðhleðslustöðvar um allan vesturhluta álfunnar eins og sjá má á korti frá Tesla. Uppbygging hraðhleðslustöðvanna í Evrópu hófst í rafbílalandinu Noregi en Tesla er að koma upp neti hraðhleðslustöðva í sunnanverðu landinu og margar þeirra eru þegar tilbúnar til notkunar. Noregur er fyrsta ríkið utan Bandaríkjanna sem fyrirtækið setur upp slíkt hleðslustöðvanet. Þar í landi eru nú 350 Tesla S bílar á skrá og í notkun.

Þegar staðsetning Tesla hraðhleðslustöðvanna er ákveðin er miðað við drægi bílanna sem er allt að 500 kílómetrar. Hraðhleðslustöðvarnar verða staðsettar við flestar megin samgönguleiðir V. Evrópu. Í frétt frá Tesla Motors segir að fyrir árslok 2014 muni hundrað prósent íbúa Þýskalands, Hollands, Sviss, Belgíu, Austurríkis, Danmerkur og Luxemborgar hafa aðgang að hraðhleðslustöð innan við 320 kílómetra frá heimili sínu. Ennfremur muni 90 prósent íbúa í Englandi , Wales, Frakklandi, Ítalíu og Svíþjóð búa við hið sama.

Hraðhleðslustöðvar Tesla eru um 20 sinnum fljótari að hlaða upp rafgeyma bílanna en venjulegur hleðslutengill. Aðeins 20 mínútur tekur að skila 120 kílóWattstundum inn á tóma geyma Tesla S bíls. Þar með eru þeir nánast fullhlaðnir.