Tesla innkallar S-bílinn

Rafbílaframleiðandinn Tesla boðaði í gær sína fyrstu stórinnköllun. Hún nær til allra Tesla S bíla sem eru samtals um 90 þúsund talsins. Hugsanlegur galli í öryggisbeltislás er ástæðan. Ekkert slys hefur þó orðið.

Sá ágalli sem er ástæða þessa fannst nýlega í Tesla S bíl í Evrópu. Hann lýsti sér þannig að stálstykkið á sjálfu beltinu sem stungið var í beltislásinn sat skakkt í lásnum. Bíllinn hafði hins vegar aldrei lent í slysi eða ákomu og engin skráð dæmi eru neins staðar til um að beltislás hafi gefið sig. „Hefði orðið slys, hefði öryggisbeltið ekki náð að veita fyllstu vernd, segir í tilkynningu á heimasíðu Tesla og biður eigendur bílanna að láta athuga bílbeltin.

Innköllunin er svokölluð frjáls innköllun þar sem engin yfirvöld hafa krafist þess að hún fari fram.