Tesla innkallar tvær milljónir bíla í Bandaríkjunum

Öryggisgallar í sjálfstýringu neyða Tesla til að innkalla og lagfæra yfir tvær milljónir bíla. Umferðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, National Highway Traffic Safety Administration (NHTSA), hefur í tvö ár farið yfir árekstra og slys á Tesla-bílum sem voru með ökumannsaðstoðarkerfið (autopilot) virkt þegar slys varð.

Rannsóknin sýnir að Tesla sjálfstýringarkerfið tryggir ekki að ökumaður sé meðvitaður um umferðina í kring sem skapar hættu á misnotkun og ofurtrúar á getu búnaðarins.

Rannsóknin sýnir að sjálfstýringarkerfið er ófullnægjandi varðandi það að tryggja að ökumenn átti sig á og skynji umferðina í kringum sig. Þetta skapar hættu á rangri notkun sjálfstýringarinnar.

NHTSA hefur fyrirskipað Tesla fyrirtækinu að innkalla tvær milljónir Tesla-bíla sem seldir hafa verið í Bandaríkjunum síðan 2015. Eftir að fjölmiðlar birtu þessa frétt féll hlutabréfaverð í Tesla um 1,5 prósent í kauphöllinni í New York.

NHTSA segir í yfirlýsingu að „sjálfvirk tækni gefi góð fyrirheit um aukið umferðaröryggi, en aðeins ef hún er notuð á ábyrgan hátt“.

Tesla gerir ekki ráð fyrir að þurfa að kalla alla bílana inn til þjónustu þar sem hægt verði að uppfæra hugbúnaðinn rafrænt á næstu dögum. Að sögn Tesla á uppfærslan að tryggja fulla athygli ökumanna í akstri þegar verið er að nota sjálfstýringu og að búnaðurinn sé aðeins notaður við viðeigandi aðstæður.