Tesla lækkar í verði í Noregi

Verð á Tesla lækkaði umtalsvert í Noregi í síðustu viku en þetta hefur verið mest seldi bíllinn í Noregi um hríð. Fyrir lækkunina kostaði Model Y tæpar 7,5 milljónir króna en kostar nú tæplega 5,8 milljónir íslenskar krónur. Model 3 lækkar töluvert minna. Kostaði fyrir lækkunina tæpar sex milljónir en er núna á 5,7 milljónir. Reyndar hefur Tesla verið að lækka víða í verði, í Evrópu og Bandaríkjunum.

 Tesla huggst lækka verð á mest seldu bíl­um sín­um um allt að 20% í Evr­ópu og Banda­ríkj­un­um til þess að mæta auk­inni sam­keppni á raf­bíla­markaði. Eftir því sem framleiðslan eykst í Giga-verksmiðjum Tesla í Bandaríkjunum þá verður framleiðslan hagkvæmari. Verðið hér á landi á Model 3 er nú frá 6.119.988 kr og Model Y er nú frá 6.491.988 kr.

Fróðlegt verður að sjá hvort aðrir bílaframleiðendur muni fylgja í kjölfarið. Reyndar var búist við að Tesla myndi tilkynna verulegar verðlækkanir á þessu ári sem rekja má til nýrra og skilvirkari framleiðsluaðferða. Ljóst er samt að þessi tímasetning og stærð verðlækkunarinnar í Noregi kemur öðrum bílaframleiðendum í opna skjöldu.

Tesla gekk í gegnum mikla erfiðleika á síðasta ári og lækkuðu hlutabréf bílaframleiðandans um 65%. Reyndar lækkuðu hlutabréf annara framleiðenda einnig en þó mun minna. Tesla sem og aðrir bílaframleiðendur áttu í erfiðleikum á síðasta ári vegna heimsfarldurs og stríðsins í Úkraínu. Eftirspurn eftir bílum hefur dregist saman í heiminum í kjölfar hækkandi vaxta og óvissu í efnahagsmálum.