Tesla mest selda bílategundin á Íslandi

Eftir því sem fram kemur á vef Samgöngustofu er Tesla sú bílategund sem hefur selst mest á fyrstu þremur mánuðum þess árs. Alls hafa 415 bifreiðar selst af þessari tegund en fyrstu bílarnir komu hingað til lands í lok febrúar. Tesla er 16% nýskráninga það sem af er á árinu. Stærsti hluti Tesla bifreiða eru af gerðinni Model 3.

Þegar rýnt er betur í tölurnar kemur í ljós að á þessu umrædda tímabili eru nýskráningar fólksbifreiða alls orðnar 2.819. Toyota hefur vermt efsta sætið í seldum bílum á síðustu 10 árum en er núna í öðru sæti með alls 386 selda bíla. Volkswagen er í þriðja sæti með 257 selda bíla og Kia með 185 bíla í fjórða sætinu.

Þegar nýskráning eftir orkugjöfum er skoðuð er afar áhugavert að sjá að rafmagnsbílar hafa tekið fram úr bensínbílum á árinu. Díselbílar eru enn á toppnum með 976 nýskráða bíla, 841 rafbíll hefur verið skráður og 784 bensínbílar.

Ef vistvænni kostir eru skoðaðir, það er tengiltvinn og metan bílar auk hreinna rafbíla, þá hefur vistvæni flokkurinn vinninginn með 1674 bíla nýskráða það sem af er ári. Til samanburðar má geta þess að 1178 rafbílar voru nýskráðir allt árið í fyrra.