Tesla Model S

http://www.fib.is/myndir/Tesla_Model_S.jpg
Tesla Model S, 5-7 manna rafmagnsbíll - væntanlegur 2011.

Tesla í Silicondalnum í Kaliforníu braut sannarlega í blað þegar fyrirtækið kom fram með Tesla Roadster rafknúna tveggja manna sportbílinn sem byggður er á Lotus Elise sportbílnum. Þarna var allt í einu kominn rafmagnsbill sem ólíkur var þeim sem fram til þess tíma höfðu komið fram – bíll með alla aksturseiginleika í hæsta flokki. Nú boðar Tesla rafknúinn fjölskyldubíl eftir tvö ár. Hann er hannaður af Franz von Holzhausen sem þar til sl. haust var aðalhönnuður Mazda.

Nýi bíllinn nefnist Tesla Model S. Hann er með sætum fyrir fimm fullorðna og tvö börn. Hann á að komast allt að 480 kílómetra á rafhleðslunni, nær hundraðinu úr kyrrstöðu á innan við sex sekúndum og kemst á yfir 200 km á klst.http://www.fib.is/myndir/Tesla_S&Roadster.jpg

Rafhlöðurnar í bílnum er komið fyrir í gólfinu og þannig gengið frá þeim að aðeins á að taka fáeinar sekúndur að skipta út tómum rafhlöðum og skella nýhlöðnum inn í þeirra stað. En það á heldur ekki að taka langan tíma að hlaða geymana, misjafnlega langan þó eftir því hverskonar tenging er í boði. Hægt á að vera að hlaða geymana með því að tengja við 120, 240 eða 480 volta tengla. Skemmsti hleðslutíminn verður úr 480 volta tenglinum, en í frétt í bandarískum fjölmiðlum um bílinn er ekki tekið fram hversu mikil afköst tengilsins í amperum talið skulu vera. En úr 480 volta tengli allavega, eiga tómir geymar að hlaðast upp á 45 mínútum.

Geymasamstæða verður fáanleg í þremur stærðum. Með þeirri minnstu á bíllinn að komast 260 km, þeirri í miðið kemst hann 370 km og með þeirri stærstu sem fyrr er sagt, 480 km. Þá segir í fréttinni að unnið sé að enn stærri geymasamstæðu sem skilar bílnum 960 km. Sjö til 10 ára ábyrgð verður á geymasamstæðum bílsins.