Tesla Model X skorar hátt í öryggisprófum Euro NCAP

Í dag birti Euro NCAP niðurstöður öryggisprófa samtakanna á 12 nýjum bílum. Euro NCAP eru samtök bifreiðaeigendafélaganna í Evrópu og áreksturs prófar nýja bíla og metur öryggi þeirra á hlutlægan hátt.

Bílarnir sem komu best út úr könnunni voru Tesla Model X, Porsche Taycan, Audi Q7, Renault Captur, Subaru Forester, Skoda Octavia, Ford Mondeo og Ford Kuga. Allir þessir framantöldu bílar fengu hinar eftirsóttu fimm stjörnur í matinu.Tesla Model X hlaut hæstu einkunn þegar kemur að öryggi fullorðinna en Subaru Forester þegar kom að öryggi barna.

Tesla leggur þunga áherslu á öryggisþáttinn

Tesla Model X skar sig þó nokkuð úr í alhliða öryggi og skoraði 94% hvað öryggisþætti bílsins áhrærir. Þess má geta að Model 3 fékk jafnhátt skor í samslags könnun fyrr á þessu ári. Þessar niðurstöður undirstrika hvað Tesla leggur þunga áherslu á öryggisþáttinn í framleiðslu sinni. Annar bíll sem fékk mikið lof var Porsche Taycan sem er jafnframt fyrsti rafmagnsbíll bílaframleiðandans. Bíllinn vakti sérstaka lukku fyrir það að slá ekki slöku við þegar kemur að öryggi þó svo að hann sé aðallega hugsaður fyrir efnameiri kaupendur sem vilja kraftmikinn rafmagnsbíl.

Pegeout 2008 með sérstökum auka öryggispakka fékk einnig fimm stjörnur en útgáfa án hans fékk fjórar stjörnur. Að auki fengu Volkswagen Sharan og SEAT Alhambra fjórar stjörnur á meðan Jeep Renegade kom verst út og fékk einungis þrjár stjörnur.

Michiel van Ratingen, framkvæmdastjóri Euro NCAP, segir niðurstöðuna einstaklega góða fyrir Tesla. Hann segir ennfremur það góða þróun að neytendur hafa meira val en nokkru sinni áður að finna öruggan og góðan valkost þegar staðið er frammi fyrir því að kaupa nýjan bíl.

Markmiðið alltaf er að auka öryggi allra vegfarenda

,,Öryggisprófanirnar okkar eru orðnar mun strangari og víðtækari en áður en bílaframleiðendur eru í flestum tilvikum að ná góðum árangri með bíla sína sem þýðir að neytendur geta valið úr enn meira úrvali öruggra ökutækja.  Kröfurnar verða auknar enn frekar á næsta ári með sérstaka áherslu á bættar prófanir á virkum öryggisbúnaði, nýjar viðmiðanir varðandi árekstra framanfrá og meiri áherslu á vörn og öryggi við hliðarárekstra. Markmiðið alltaf er að auka öryggi allra vegfarenda,“ segir Michiel Ratingen.