Tesla Model Y kom sá og sigraði - kínverskir nýliðar með sterka innkomu

Tesla Model Y náði mjög góðum árangri og skýst á toppinn yfir nýlega birta fimm stjörnu bíla
Tesla Model Y náði mjög góðum árangri og skýst á toppinn yfir nýlega birta fimm stjörnu bíla

Euro NCAP birti nýjar öryggisúttektir á nokkrum bílum í vikunni. Tesla Model Y náði mjög góðum árangri og skýst á toppinn yfir nýlega birta fimm stjörnu bíla. Nýr rafknúinn Genesis GV60 (lúxusmerki Hyundai) heldur áfram 5 stjörnu velgengni GV70 og GV80 sem voru prófaðar á síðasta ári. Euro NCAP prófaði einnig tvo nýliða frá kínverska framleiðandanum Great Wall Motor Company. Bæði ORA Funky Cat og WEY Coffee 01 náðu fimm stjörnum. Athygli vekur að nýr Kia Niro fékk aðeins fjórar stjörnur í staðalútgáfu en Niro með auka öryggispakka náði fimm stjörnum.

ORA Funky Cat Euro Ncap

Tesla Model Y prufubíllinn kemur frá Tesla verksmiðjunni, Gigafactory, í Berlín. Bíllinn náði mjög góðu skori s.s. 97% varðandi öryggi ökumanns og 98% skor varðandi öryggisaðstoð m.a. fullt hús fyrir akreinastuðning og myndavéla eftirlitskerfið. Í brautarprófuninni virkaði Vision myndavélakerfi Model Y einstaklega vel varðandi það að forða árekstrum við aðra bíla, reiðhjól og gangandi vegfarendur.

Tesla Y Euro Ncap

Kínverskir framleiðendur hafa verið að fóta sig á evrópska markaðnum á liðnum árum en náð misjöfnum árangri í öryggisúttektum. Great Wall Motor sýnir að fyrirtækið getur framleitt bíla sem uppfylla öryggiskröfur á við það sem best þekkist í Evrópu.

„Við höfum séð góðan árangur hjá nokkrum kínverskum framleiðendum í gegnum tíðina, en einnig ófullnægjandi árangur. Á þessu ári mun Euro NCAP prófa fleiri kínverska bíla en áður. Það má segja að Great Wall setji í raun ný viðmið fyrir aðra að fylgja. Ég óska Tesla til hamingju með framúrskarandi árangur Model Y. Tesla segist ekki sætta sig við neitt nema það besta og við vonum að framleiðandinn halda áfram að stefna að því markmiði í framtíðinni.“ Michiel van Ratingen, framkvæmdastjóri Euro NCAP.

Kóreskir framleiðendur stóðu sig einnig vel í þessari lotu af prófunum. Rafknúni jeppinn Genesis GV60 fær fimm stjörnur í einkunn, en hefði mátt gera betur varðandi verndun viðkvæmra vegfarenda. Kia Niro fær fjórar stjörnur í staðalútfærslu sem m.a. innifelur framvísandi myndavélakerfi. Vilji neytandi njóta betra öryggis þarf að kaupa sérstaklega „DriveWise“ öryggispakkann, sem bætir ratsjá við skynjarabúnaðinn.

Genesis GV60 Euro Ncap

Þriðja kynslóð Hyundai i20 er með fjórar stjörnur líkt og Hyundai BAYON var með 2021. Og nýju rafknúnu gerðirnar af litlu kassa- og iðnaðarmannabílunum frá Stellantis – Citroen ë-Berlingo, Opel/Vauxhall Combo e-Life og Peugeot e-Rifter fá fjórar stjörnur líkt og þessir bílar fengu búnir brunahreyfli árið 2018.