Tesla og BMW ræða um samvinnu

Der Spiegel segir frá því að Tesla rafbílaframleiðandinn í Bandaríkjunum og BMW í Þýskalandi eigi nú í viðræðum um samvinnu í framleiðslu rafgeyma og koltrefjaeiningar í bílayfirbyggingar. Þetta kemur fram í viðtali tímaritsins við Elon Musk eiganda Tesla sl. sunnudag. Þar kemur fram að rætt er um tæknilega samvinnu. Tesla leggur rafgeyma til hennar en BMW yfirbyggingaeiningar úr koltrefjum.

Elon Musk segir í viðtalinu að koltrefjaeiningarnar sem BMW býr til og notar í m.a. i3 rafbílinn séu áhugaverðar en séu auk þess tiltölulega hagkvæmar í framleiðslu. Hann segir einnig að í undirbúningi sé hjá Tesla að hefja rafgeymaframleiðslu í Þýskalandi innan næstu 5-6 ára.