Tesla reisir risa-rafhlöðuverksmiðju í USA

Elon Musk forstjóri og eigandi Tesla Motors kynnti í gær fyrirætlanir sínar um að reisa risaverksmiðju sem framleiða mun líþíumrafhlöður fyrir rafbíla. Verksmiðjan mun rísa á stað þar sem hvað auðveldast verður að afla endurnýjanlegrar orku til reksturs hennar (sólar- og vindorku). Þau fjögur ríki sem vænlegust þykja að þessu leyti eru Texas, New Mexico, Arizona og Nevada.

Risaverksmiðjunni er ætlað að framleiða rafhlöður fyrir Tesla rafbíla og reyndar aðrar tegundir einnig. Hún á að komast í fullan rekstur árið 2020 og reiknað er með að verð bílarafhlaðna muni þá strax lækka um 30% frá því sem það er nú. Rafhlöðurnar eru afar dýrar í dag og segja má að þær nemi rúmlega helmingi þess verðs sem rafbíll kostar.

Áætlaður kostnaður við að reisa verksmiðjuna er milli fjórir og fimm milljarðar dollara og þegar hún kemst í gagnið mun hún veita 6.500 manns atvinnu og framleiða rafhlöður í hálfa milljón bíla árlega.