Tesla S bíll brann

Eldur varð laus í Tesla S rafbíl þann 4. október sl. Þetta gerðist á vegi í Washingtonríki í Norðvestur-Bandaríkjunum. Allt brann í bílnum sem brunnið gat. Fjöldi samsæriskenninga hafa farið á flug, m.a. sú að olíuiðnaðurinn eigi þarna hlut að máli til ófrægingar rafbílum yfirleitt og sérstaklega þó þessari bifreiðategund sem náð hefur verulegri útbreiðslu, einn fárra rafbíla. Vegfarendur náðu brunanum á myndband og settu á Youtube og hlutabréf í Tesla féllu um 6,2 prósent í kjölfarið.

Hvað sem samsæriskenningum líður þá virðist sem járnstykki á veginum hafi rekist upp undir bílinn og valdið skammhlaupi, hugsanlega í rafhlöðunum sem eru í gólfi bílsins. Tölvukerfi bílsins varaði ökumanninn við og sagði honum að stansa og koma sér út úr bílnum. Skömmu síðar varð eldurinn laus. Bílflakið er nú í rannsókn og ekki er reiknað með neinum yfirlýsingum frá Tesla fyrr en henni er lokið.

Þessi bruni er eftir því sem best er vitað eina dæmið um bruna í Tesla S rafbíl, en framleidd hafa verið yfir 20 þúsund eintök af bílnum. Það er því tæpast hægt að halda því fram að þetta atvik sé stórt innlegg í einhverja brunatölfræði. En vissulega getur atvikið valdið framleiðandanum slæmum búsifjum, sbr. stórbrunann sem varð í flota Fisker Karma bíla sem höfðu farið á kaf í stormflóði á bandarískum hafnarbakka. Eftir flóðið varð eldur laus í bílunum sem brunnu í kjölfarið. Sala á Fisker Karma bílum stöðvaðist við þetta og Fisker varð gjaldþrota.

Tesla S hefur fyrir ekki svo löngu staðist áreksturspróf bandarísku umferðaröryggisstofnunarinnar NHTSA með hæstu einkunn.