Það tók 10 mínútur að hirða 2,5 milljarða af viðskiptavinum Sjóvár

Á hluthafafundi Sjóvár þann 19. október síðastliðinn var samþykkt að greiða hluthöfum félagsins 2,5 milljarða króna til að „laga fjármagnsskipan félagsins“ eins og segir í fundargerðinni. Á mæltu máli þýðir þetta að Sjóvá hafði safnað mun meiri fjármunum í sjóði sína en þurfti til að standa undir tryggingastarfseminni.

Hluthafafundurinn stóð í 10 mínútur og má nærri geta að hluthafar hafi talið þeim mínútum vel varið. En hvernig stóð á því að Sjóvá átti of mikið af peningum – svo mikið að það þurfti að borga þá til eigendanna? Ástæðan er einföld: Sjóvá hefur rukkað viðskiptavini um mun hærri iðgjöld en þurfti í raun og veru. Þessum peningum hefur Sjóvá safnað í sjóði og ávaxtað. Þetta eru peningar viðskiptavina, en Sjóvá kaus engu að síður að senda þá til hluthafanna.

Þessir 2,5 milljarðar voru ekki eini glaðningurinn til hluthafanna frá Sjóvá. Félagið borgaði þeim einnig 2,65 milljarða króna í arð vegna ársins 2020. Samtals fengu hluthafar því 5,15 milljarða króna frá Sjóvá. Að baki þessum „höfðingsskap“ standa oftekin iðgjöld og ávöxtun þeirra.

Eins og gefur að skilja gagnrýndi FÍB fyrirætlanir Sjóvár áður en til útgreiðslunnar kom. Sjóvá svaraði með þeirri gömlu og þreyttu tuggu að félagið tapaði stöðugt á bílatryggingum. Ekkert er fjarri sanni. Bílatryggingar eru bestu mjólkurkýr tryggingafélaganna. Hvernig getur Sjóvá borgað hluthöfum 5,15 milljarða króna af taprekstri?