Þefteymi að störfum hjá Volvo

http://www.fib.is/myndir/Jill.jpg
Jill Frantz er í þefteymi Volvo. Hér er hún að störfum.

Ennþá hefur enginn tæknibúnaður verið fundinn upp sem komið getur í staðinn fyrir mannsnefið í því að þefa og skilgreina hvort lykt er góð eða slæm. Af þeirri ástæðu hefur hópur fólks verið um árabil í fullu starfi hjá Volvo í Svíþjóð við að lykta af hinu og þessu.

Í hópnum eða þessu þefteymi Volvo eru átta manns. Fólkið er sérvalið út frá þeirri meginforsendu að lyktarskyn þess sé eðlilegt og eins og hjá flestum. Hlutverk hópsins er að leiðbeina hönnuðum og þeim sem velja efni og ákveða framleiðsluaðferðir einstakra hluta bílsins, einkanlega þeim sem innrétting bílanna er sett saman úr, og eins og segir í frétt frá Volvo um málið; -Volvo verður að ilma eins og Volvo.   

„Þefstjóri“ Volvo heitir Patrick Libander. Hann segir það eðlilega einstaklingbundið hvað sé skilgreint sem vond eða góð lykt. „Mismunandi fólk skynjar lykt á mismunandi hátt og lyktarskynjun tengist gjarnan mismunandi uppruna, kynslóðum og menningu og misjafnrar reynslu einstaklinganna. En einmitt þetta gerir starf mitt svo spennandi,“ segir Libander.

Innviðir og innrétting nútíma bíla er sett saman úr margskonar efnum eins og ýmsum plastefnum sem innihalda allskyns efnasambönd. Flest þessara efnasambanda eru bundið öðrum efnum en þó berst lítilræði af þeim út í andrúmsloftið svo úr verður hin dæmigerða lykt sem fylgir nýjum bílum. Volvo vill fylgjast grannt með þessum lyktargjöfum og styrk þeirra inni í bílunum og hlutverk þefteymisins er að gera það og skilgreina hvað er ásættanlegt og hvað ekki.

Þefteymið starfar þannig að fjórir úr því koma að hverri lyktarprófun. Fólkið er allt sérvalið og verður að hafa eðlilegt lyktarskyn og vera hvorki ofnæmt eða ónæmt fyrir neinni sérstakri lykt. „Þeim sem þykir góð lykt af því sem öðrum ofbýður, kemur ekki til greina í hópinn og heldur ekki þeis sem eru ofurviðkvæmir fyrir einhverri lykt,“ segir Libander. Þá segir hann að reykingafólk komi ekki til greina í þefteymið vegna þess að reykingar hafi áhrif á lyktarskynið.

Þefteymið gefur lyktartegundum einkunnir eftir styrk þeirra á skalanum 1-6. Ef lykt fær einkunnina 1 þá er hún vart greinanleg en einkunnin 6 þýðir að lyktin er óþolandi sterk. Hver lykt má ekki fá hærri einkunn en 3 sem þýðir að hún sé greinileg en ekki óþægileg.  

Volvo rekur sérstaka lyktarstöð í Borås norðan við Gautaborg. Þar eru bílar sem stöðugt er skipt um innréttingar í. Bílarnir eru síðan settir í sérstaka herma sem líkja eftir veðurfarsaðstæðum, sólskini, myrkri, hita og kulda tímunum saman. Auk þefteymsisins eru skynjarar sem mæla hverskonar útgufun og losun úr innréttingaefnunum. Smiðshöggið á hverja tilraun leggur svo þefteymið og gefur lyktinni úr innréttingunni sína einkunn. „Við gerum miklar kröfur til okkar sjálfra og til undirframleiðenda okkar enda er það þannig að ferðalag í bilnum á að vera ánægjulegt í alla staði, ekki síst fyrir nefið,“ segir Patrik Libander.